Börkur NK siglir inn Norðfjörð með fullfermi af kolmunna í apríl 2015. Ljósm.Hákon ErnusonBörkur NK siglir inn Norðfjörð með fullfermi af kolmunna í apríl 2015. Ljósm.Hákon ErnusonBörkur NK hélt til kolmunnaveiða suður af Færeyjum síðastliðna nótt og ráðgert er að Beitir NK sigli í kjölfar hans í dag.  Um 30 tíma sigling er á veiðisvæðið en vegalengdin á miðin er um 380-400 mílur. Íslensku skipin geta veitt kolmunnann á gráa svæðinu á milli írsku og færeysku lögsögunnar og inni í færeysku lögsögunni. Þær reglur gilda að inni í færeysku lögsögunni mega einungis 12 íslensk skip veiða samtímis og tvö síðustu ár hafa íslensk skip stundum þurft að bíða í höfn í Færeyjum eftir að komast að.
 
Heimasíðan sló á þráðinn til Hjörvars Hjálmarssonar skipstjóra á Berki í morgun og sagði hann að nú væri beðið eftir því að kolmunninn gengi norður úr írsku lögsögunni og inn á gráa svæðið en síðan gengi hann inn í færeysku lögsöguna. „Síðustu tvö árin hófst kolmunnaveiði íslenskra skipa þarna hinn 13. apríl og gerum við ráð fyrir að veiðin hefjist um svipað leyti í ár. Það hefur verið hörkuveiði að undanförnu í írsku lögsögunni þannig að menn eru bara bjartsýnir,“ sagði Hjörvar.