Börkur NK að veiðum. Ljósm. Helgi Freyr Ólason

Börkur NK hefur verið í svonefndum ábyrgðarslipp í Skagen í Danmörku að undanförnu en hann hélt þaðan beint til makrílveiða sl. föstudag. Stefnan var tekin í Smuguna enda hafði makrílleit við landið skilað sáralitlum árangri. Barkarmenn luku fyrsta holinu í morgun og reyndist aflinn vera 120 tonn eftir að dregið hafði verið í sjö tíma. Að sögn Ólafs Gunnars Guðnasonar stýrimanns er um að ræða fallegan 460 gramma fisk. Ólafur sagði að nú hefði Vilhelm Þorsteinsson EA einnig hafið veiðar en auk þeirra væru nokkur færeysk skip á þessum miðum sem eru um 340 mílur austur af Neskaupstað.

Gert er ráð fyrir að Barði NK og Beitir NK haldi til veiða í Smugunni í nótt en líkt og síðasta sumar er ráðgert að Síldarvinnsluskipin og Vilhelm Þorsteinsson hafi samstarf um veiðarnar.