Börkur NK kom til Neskaupstaðar í morgun með 600 tonn af makríl og tæp 400 tonn af síld. Heimasíðan ræddi við Hjörvar Hjálmarsson skipstjóra og spurði fyrst hvort hann teldi að makrílvertíðinni væri að ljúka. „Já, það bendir ýmislegt til þess en þó geta vissulega komið einhverjir góðir dagar til viðbótar. Makríllinn sem við erum með er okkar eigin afli og síðan afli frá Bjarna Ólafssyni og Beiti. Þessi afli fékkst nánast allur á einum degi, en það að er óneitanlega svolítið lokalegt í makrílnum núna. Þegar makrílveiðinni lýkur fara menn að einbeita sér að norsk-íslensku síldinni. Á landleiðinni tókum við eitt fjögurra tíma hol sunnan í Digranesflakinu, við Hattaskipið, og fengum 385 tonn af síld. Jóna Eðvalds tók líka síldarhol þarna á sama tíma. Við könnuðum svæðið ekki neitt þannig að við gerum okkur litla grein fyrir því hve mikið er af síld þarna, sagði Hjörvar.

Börkur NK kom til Neskaupstaðar í morgun með 600 tonn af makríll og tæplega 400 tonn af síld. Ljósm: Smári Geirsson