Síldarvinnsluskipin Börkur NK og Beitir NK héldu til kolmunnaveiða sl. mánudagskvöld og hófu veiðar í gærmorgun. Heimasíðan náði sambandi við Leif Þormóðsson stýrimann á Berki í morgun og spurði frétta. „Við erum búnir að hífa einu sinni 445 tonn eftir að hafa dregið í 13 – 14 tíma. Beitir er einnig búinn að hífa einu sinni 340 tonn. Þessi skip eru ein að kolmunnaveiðum hérna suðaustur af Færeyjum við línuna á milli Færeyja og Shetlandseyja. Það er dálítið að sjá hérna, sérstaklega var töluvert að sjá í nótt. Það er bræla núna en það á að fara að lægja. Hvort skip má taka 2.000 tonn í þessari veiðiferð,“ segir Leifur.