Smökkuð var síld frá 8 framleiðendum. Ljósm. Geir Sigurpáll Hlöðversson
Borið var saman bæði útlit og bragð. Ljósm. Geir Sigurpáll Hlöðversson

22. desember sl. fór fram síldarsmökkun í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Þar gat starfsfólk fyrirtækisins bragðað á jólasíld frá átta framleiðendum og borið saman framleiðsluna. Auk síldar frá Síldarvinnslunni var unnt að gæða sér á síld frá Brim, Skinney – Þinganesi, Eskju, Loðnuvinnslunni, Ósnesi á Djúpavogi og Vestmannaeyjafyrirtækjunum Vinnslustöðinni og Ísfélaginu. Einnig voru síldarsalöt á boðstólum og ýmislegt meðlæti.

Miklar umræður áttu sér stað um hinar ýmsu tegundir jólasíldarinnar og báru menn saman útlit og bragð. Gjarnan var lögð áhersla á að síldarbitarnir væru stinnir og girnilegir og eins voru þættir metnir á borð við sætleika. Allt var þetta til gamans gert og nutu menn stundarinnar til hins ítrasta.

Ráðgert er að á næsta ári verði síldarsmökkunin gerð að meiri viðburði og fleiri boðið að taka þátt. Staðreyndin er sú að jólasíld kitlar bragðlaukana með þægilegum hætti og ávallt er ánægjulegt að bera saman mismunandi tegundir og ræða hvaða framleiðanda hefur tekist best til hverju sinni.