Beitir NK kom til Neskaupstaðar í morgun með 1.030 tonn af íslenskri sumargotssíld sem fékkst fyrir vestan land. Síldin er unnin í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar en þar er verið að framleiða svonefnda flapsa. Heimasíðan ræddi við Tómas Kárason skipstjóra og spurði frétta af veiðiferðinni. “Þetta gekk býsna vel. Við stoppuðum í 26 tíma á miðunum og fengum aflann í þremur holum. Eitt holanna gaf um 200 tonn en hin tvö um 400. Það var dregið frá tveimur og upp í fimm eða sex tíma í hverju holi. Það er búin að vera fínasta veiði þarna vesturfrá en stundum hefur þó síldin verið að hverfa en blossað fljótlega upp á ný. Við vorum núna að veiða á Wilson Corner sem er á suðvesturhorni Látragrunns. Það hefur verið brælusamt þarna vesturfrá og í túrnum þá drógum við þegar hlé var á veðrinu. Það var bölvuð bræla þegar við komum á miðin og líka þegar við fórum. Það er ekki hægt að vera annað en ánægður með síldveiðarnar að undanförnu bæði fyrir austan og vestan. Veiðarnar hafa gengið glimrandi vel. Nú er væntanlega dálítið stopp hjá okkur en næst á dagskrá eru kolmunnaveiðar í desember í færeyskri lögsögu,” segir Tómas.