Um síðustu mánaðarmót urðu þáttaskil í öryggismálum hjá Síldarvinnslunni, en þá fór Guðjón B. Magnússon, öryggisstjóri, á eftirlaun. Tekin var ákvörðun um að breyta fyrirkomulagi öryggismála með þeim hætti að leggja niður stöðu öryggisstjóra og auka ábyrgð rekstrarstjóra hverrar deildar á öryggismálum. „Rekstarstjórarnir verða í raun öryggisstjórar sinna deilda og hafa þar yfirumsjón með innleiðingu og umbótum á öryggisferlinu“, segir Sigurður Ólafsson, verkefnastjóri, sem hefur unnið að undirbúningi breytinganna. „Við höfum unnið mikla grunnvinnu undanfarin ár í því að efla öryggismenningu fyrirtækisins undir stjórn Guðjóns. Við höfum m.a. áhættugreint allar verksmiðjur og farið í gegnum ítarlegar úttektir hjá Vinnueftirlitinu. Við höfum gert okkar besta til að útrýma hættum í vinnuumhverfinu með breytingum á búnaði og vinnuaðstöðu þar sem slíku hefur verið við komið og þar hefur oft verið um talsverðar fjárfestingar að ræða, en þetta hefur klárlega skilað sér í öruggari vinnustöðum. Við höfum einnig sett skýrar grunnreglur um öryggi og gefið út verklagsreglur fyrir öll vinnusvæði sem eiga að lágmarka áhættu við vinnuna. Á þessum tímamótum ætlum við að yfirfara þetta allt saman, en svo verður það á ábyrgð hverrar einingar að viðhalda ferlinu og tryggja að sífellt sé unnið að því að tryggja að starfsfólk skilji öryggis og verklagsreglur, fylgi þeim og taki svo þátt í að bæta þær jafnt og þétt. Þetta á alveg að geta gengið upp án þess að vera með öryggisstjóra í fullu starfi, en við Hákon í starfsmannahaldinu munum fylgja þessu eftir og halda utan um vinnu öryggisráðsins sem er samráðsvettvangur stjórnenda um öryggismálin. Samhliða erum við svo að vinna að innleiðingu á nýju fræðslukerfi sem mun hjálpa stjórnendum að halda utan um fræðslumálin og hafa yfirsýn yfir þjálfun síns fólks. Kerfið býður einnig upp á möguleika til að miðla efni yfir netið og er þá hægt að nálgast fræðsluefni hvar og hvenær sem er. Við stefnum á að hafa kerfið klárt til að sinna hluta af nýliðafræðslunni í sumar, en taka það svo í kjölfarið í notkun fyrir alla starfsmenn. Það er því síður en svo einhver lægð framundan í öryggismálum þótt Guðjón sé sestur í steininn helga, enda þarf stöðuga vinnu í þessu til að árangur náist. Það voru fleiri atvik á síðasta ári en við hefðum viljað og þótt flest þeirra væru minniháttar, þá erum við líka enn að sjá alvarleg slys þrátt fyrir alla vinnuna sem við höfum lagt í þetta, sem sýnir hvað þetta er snúið. Ég vil annars nýta tækifærið og þakka Guðjóni fyrir sérlega gott samstarf og óska honum ánægjulegra eftirlaunaára“, segir Sigurður að lokum.