Frá briddsmótinu í fiskiðjuverinu. Ljósm. Ína D. GísladóttirFrá briddsmótinu í fiskiðjuverinu. Ljósm. Ína D. GísladóttirÁ föstudag og laugardag fór fram briddsmót í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Um var að ræða svonefnt Síldarvinnslumót en það er Austurlandsmót í tvímenningi. Alls tóku 14 pör þátt í mótinu og komu þau víðs vegar að af Austurlandi. Þarna voru spilarar frá Reyðarfirði, Eskifirði, Fáskrúðsfirði, Stöðvarfirði, Seyðisfirði, Borgarfirði og Héraði auk Norðfirðinga. Síldarvinnslan styrkti mótið með ýmsum hætti og auk hefðbundinna verðlauna fengu þátttakendur jólasíld frá fyrirtækinu til að gæða sér á.
 
Í fyrsta sæti á mótinu voru þeir Guttormur Kristmannsson og Magnús Ásgrímsson, þeir Bjarni Sveinsson og Eyþór Stefánsson höfnuðu í öðru sæti og í þriðja sæti voru Jón Halldór Guðmundsson og Sigurður Valdimarsson.
 
Mótið þótti afar vel heppnað og héldu spilarar glaðir og ánægðir heim á leið að því loknu.