Frá brunaæfingu í fiskimjölsverksmiðjunni í Neskaupstað.  Ljósm. Guðjón B. MagnússonHinn 23. janúar sl. var efnt til brunaæfingar í fiskimjölsverksmiðju Síldarvinnslunnar í Neskaupstað í samvinnu við Slökkvilið Fjarðabyggðar. Samhliða æfingunni var gerð úttekt á verksmiðjunni með tilliti til brunavarna og farið yfir allan brunavarnabúnað. Allir starfsmenn verksmiðjunnar sóttu æfinguna og sýndu verkefnunum mikinn áhuga.

Guðjón B. Magnússon verksmiðjustjóri lofar samstarfið við Slökkviliðið og segir þá þjálfun sem það hafi veitt starfsmönnunum ómetanlega. „Á æfingunni fengu menn að kynnast notkun slökkvitækja og annars búnaðar með tilliti til mismunandi elda og er slík þjálfun afar gagnleg. Að auki var farið yfir viðbrögð ef eldur kemur upp. Það er afar mikilvægt að starfsmenn þekki þann eldvarnarbúnað sem til staðar er á vinnustaðnum og sé þjálfaður í að nota hann. Í kjölfar æfingarinnar voru ákvarðanir teknar um umbætur á búnaðinum, til dæmis var slökkvitækjum fjölgað og staðsetningu þeirra breytt. Þá er rétt að geta þess að ekki alls fyrir löngu skipulagði Slökkviliðið námskeið fyrir starfsmenn um störf í þröngum rýmum og var það einnig afar gagnlegt“, sagði Guðjón.

Upplýsti verksmiðjustjórinn að stefnt væri að því að halda brunaæfingar oftar í framtíðinni og stuðla þannig að auknu öryggi starfsmanna á vinnustaðnum.