kolmunni

                Börkur NK, Bjarni Ólafsson AK og Margrét EA eru enn að kolmunnaveiðum við Færeyjar. Skipin eru núna vestan við eyjarnar, norðarlega í Ræsinu svonefnda. Heimasíðan heyrði í Leifi Þormóðssyni stýrimanni á Berki og Runólfi Runólfssyni skipstjóra á Bjarna Ólafssyni og spurðist frétta. Leifur sagði að síðustu dagana hefði verið þokkalegt nudd. „Við erum komnir með 1360 tonn í fjórum holum. Það er híft einu sinni á sólarhring og besta holið hjá okkur var 400 tonn. Við náum vonandi í skipið en það gæti tekið einhvern tíma. Yfirleitt sést lítið en á köflum kemur þokkalegt lóð og það verður að segjast að veiðin hefur verið vel ásættanleg miðað við árstíma. Fyrir utan íslensku skipin þrjú eru Færeyingar hér að veiðum og svo eru Rússar norðan við eyjarnar,“ segir Leifur.

                Runólfur segir að veiðin hafi verið þolanleg en nú sé hins vegar daprara yfir henni. „Nú í augnablikinu er þetta lélegt. Ég er hræddur um að við séum búnir að missa fiskinn yfir línu og inn í lokað hólf. Það er mikil ferð á fiskinum. Við erum komnir með 1300 tonn í fjórum holum og var stærsta holið 410 tonn. Í gær fengum við 360 tonn. Menn halda eitthvað áfram í þessu á meðan eitthvað fæst. Annars verður að geta þess að hér hefur verið frábært veður síðustu daga. Alger steik,“ segir Runólfur.