Bergur VE landaði í Eyjum í gær. Ljósm. Arnar Richardsson

Ísfisktogararnir Vestmannaey VE og Bergur VE hafa fiskað vel að undanförnu. Vestmannaey landaði fullfermi í Eyjum í fyrradag og Bergur í gær. Heimasíðan sló á þráðinn til Jóns Valgeirssonar skipstjóra á Bergi og spurði hann út í gang veiðanna. “Það er búið að vera fínt fiskirí. Túrarnir eru stuttir, gjarnan einn og hálfur til tveir dagar og síðan er fullfermi landað. Við erum búnir að taka þrjá túra tvær vikur í röð. Þetta er bullandi keyrsla. Upp á síðkastið höfum við verið að veiða vestan við Eyjar og einnig austur á Ingólfshöfða. Í síðasta túr vorum við á Höfðanum. Aflinn er þorskur, ufsi og ýsa. Það var mest af ýsu í þessum túr en það var mest af þorski og ufsa í túrnum á undan. Við erum í reynd að sækja fisk fyrir vinnsluna. Það er búið að vera þokkalegasta veður að undanförnu, þó ávallt komi brælur af og til. Brælurnar hafa ekki staðið lengi og tafið okkur lítið. Í sannleika sagt hefur veður verið með skárra móti,” segir Jón.