Beitir NK sigir inn Norðfjörð með fullfermi af kolmunna sl. föstudag.
Ljósm. Smári Geirsson

Að undanförnu hefur verið bullandi kolmunnaveiði hjá íslenskum skipum í færeysku lögsögunni. Beitir NK kom til Neskaupstaðar á föstudag með tæplega 3.100 tonn og upplýsti Tómas Kárason skipstjóri að aflinn hafi fengist í sjö holum. Stærsta holið var 730 tonn. Segir Tómas að kolmunninn veiðist á stóru svæði, bæði í færeysku lögsögunni og á hinu svonefnda gráa svæði og það virðist vera mikill fiskur á ferðinni. Beitir hélt á ný til veiða strax að löndun lokinni.

Vilhelm Þorsteinsson EA kom til Seyðisfjarðar með fullfermi eða rúm 3.000 tonn í gærmorgun og Hákon EA kom til Neskaupstaðar í gærkvöldi einnig með fullfermi. Þá er Barði NK kominn til Seyðisfjarðar með fullfermi og verður landað úr honum í dag. Börkur NK er á landleið með enn eitt fullfermið og mun hann landa í Neskaupstað.

Eggert Ólafur Einarsson, verksmiðjustjóri á Seyðisfirði, segir að verksmiðjan þar hafi verið gangsett í gærmorgun og allt gangi vel. Hafþór Eiríksson, verksmiðjustjóri í Neskaupstað, upplýsti að verksmiðjan þar hafi farið í gang á föstudagskvöld og vinnslan gengi vel.