Unnið að stækkun Sigga Nobb. Ljósm. Smári Geirsson

Árið 2021 festi Síldarvinnslan kaup á gistiheimilinu Sigga Nobb og hefur húsið síðan verið nýtt sem starfsmannabústaður. Í húsinu voru átta tveggja manna herbergi en þar vantaði sárlega eldhús og setustofu fyrir íbúa. Tekin var ákvörðun um að byggja við húsið og hófust framkvæmdir í marsmánuði sl. Viðbyggingin er hönnuð af Gunnari S. Larssyni hjá Mannviti og eru í henni sex tveggja manna herbergi ásamt geymslu, eldhúsi og setustofu. Viðbyggingin er 206 fermetrar að stærð. Arkitektastofan Grafít kom að því að ákveða útlit hússins. Það er Birtingur byggingafélag sem annast framkvæmdirnar með aðkomu verktaka í Neskaupstað en Geir Sigurpáll Hlöðversson hefur umsjón með þeim fyrir hönd Síldarvinnslunnar.

Húsið er reist úr svonefndum CLT einingum en það eru krosslímdar timbureininingar. Líklegt er að hér sé um að ræða fyrstu bygginguna í Neskaupstað sem reist er úr slíkum einingum. Kostir eininganna eru ýmsir og má nefna að byggingartími er stuttur, mikill styrkur, gott einangrunargildi og umhverfisvæn byggingaraðferð.

Viðbyggingin var reist í þessari viku og er gert ráð fyrir að hún verði tekin í notkun í júlímánuði næstkomandi.

Suðurhlið Sigga Nobb eftir stækkun