Landað úr Berki NK. Ljósm. Hákon ViðarssonBörkur NK kom til löndunar í Neskaupstað í gær með rúmlega 800 tonn af síld. Að sögn Hjörvars Hjálmarssonar skipstjóra er um að ræða fína síld en hún er dálítið blönduð makríl og kolmunna. „Við byrjuðum að toga á Rauða torginu en enduðum í Seyðisfjarðardýpinu,“ sagði Hjörvar. „Það virðist ekki vera neitt mikið af síld hér nærri landinu og veiðin er dálítið gloppótt. Það er hins vegar unnt að finna verulega síld fjær landinu. Ég var að frétta að miklu meira væri að sjá austur á 9. gráðu. Annars er ekkert hægt að kvarta, veiðin hefur gengið þokkalega vel til þessa,“ sagði Hjörvar að lokum.