Kolmunnaskip Síldarvinnslunnar komu öll til löndunar í Neskaupstað í síðustu viku. Börkur landaði tæplega 1800 tonnum, Beitir um 1700 tonnum og Birtingur 500 tonnum eftir stutta veiðiferð. Afli hafði verið tregur og því voru skipin kölluð í land. Beitir hélt til veiða á ný á fimmtudagskvöld og kom til hafnar í gær með lítinn afla. Hálfdan Hálfdanarson skipstjóri á Beiti sagði að í veiðiferðinni hefðu verið tekin tvö hol og í ljós hefði komið að fiskurinn væri dreifður og var árangur því lítill. Annað holið var tekið við miðlínuna á milli Íslands og Færeyja og hitt við Hvalbakshallið.