Það hefur gengið heldur erfiðlega að veiða makríl í Síldarsmugunni síðustu dagana. Beitir NK kom eldsnemma í morgun til Neskaupstaðar með 200 tonn og Bjarni Ólafsson AK er á leiðinni þangað með 400 tonn. Heimasíðan ræddi stuttlega við Runólf Runólfsson, skipstjóra á Bjarna Ólafssyni, og spurði fyrst hvort hann hefði á tilfinningunni að vertíðinni væri að ljúka. „Já, óneitanlega finnst mér komin svolítil lokalykt af þessu. Veiðin hefur verið slök síðustu dagana. Það veiðist eingöngu yfir daginn, frá birtingu og fram undir rökkur, en engin veiði er yfir nóttina. Fiskurinn sem fæst er hins vegar ágætur og hentar vel til vinnslu. Aflinn, sem er nú um borð, er okkar eigin afli frá því í gær og síðan afli frá Berki. Vilhelm Þorsteinsson fékk einnig um 200 tonn í gær en þeim afla var dælt um borð í hann. Fiskurinn er á ferðinni núna og þegar hann er kominn af stað virðist ekkert stoppa hann. Ef einhvers staðar fréttist af fiski er allur flotinn kominn á þann blett og það eru íslensk, færeysk og rússnesk skip. Í fyrra lauk vertíðinni hjá okkur í byrjun september og það gæti einnig gerst núna. Það er búið að vera fyrirhafnarmeira en áður að eiga við makrílinn en ég held menn geti verið mjög ánægðir með hve mikið er búið að veiða. Auðvitað vonar maður að veiðin haldi eitthvað áfram en það mun skýrast á allra næstu dögum,“ segir Runólfur.