Kolmunnaveiði er líklega að ljúka að sinni. Ljósm. Helgi Freyr Ólason

Svo virðist vera að kolmunnaveiðarnar í færeysku lögsögunni séu að fjara út. Þá hefur slæmt veður á miðunum truflað veiðar verulega. Síldarvinnsluskipin Barði NK, Beitir NK og Börkur NK eru enn á miðunum en Samherjaskipin Margrét EA og Vilhelm Þorsteinsson EA eru á landleið með afla og hætt kolmunnaveiðum að sinni. Margrét er væntanleg til Neskaupstaðar í kvöld með 1.400 tonn og Vilhelm Þorsteinsson fer á Seyðisfjörð með 1.100 tonn. Á undanförnum árum hefur kolmunnaveiðunum í færeysku lögsögunni á þessum árstíma venjulega lokið seint í janúarmánuði eða í byrjun febrúar.

Hafþór Eiríksson, rekstrarstjóri fiskimjölsverksmiðja Síldarvinnslunnar, segir að vel hafi gengið að vinna kolmunnann að undanförnu. „Verksmiðjurnar í Neskaupstað og á Seyðisfirði hafa hvor um sig tekið á móti 6.000 – 7.000 tonnum og kolmunninn hefur verið afar gott hráefni til vinnslu. Í Neskaupstað er samhliða vinnslunni verið að setja upp tæki í nýja og endurbætta verksmiðju og einmitt núna er verið að undirbúa uppsetningu á nýjum þurrkara þannig að þar er býsna mikið um að vera,“ segir Hafþór.