Ólafur Gunnarsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar, hefur sent frá sér ritið Eftir flóðið en í því fjallar hann um uppbyggingu Síldarvinnslunnar eftir snjóflóðin sem féllu í Neskaupstað 20. desember 1974. Hér er um að ræða fróðlega samantekt sem varpar skýru ljósi á þá baráttu sem háð var fyrir enduruppbyggingu atvinnufyrirtækjanna sem skemmdust eða eyðilögðust í hamförunum, en fiskimjölsverksmiðja Síldarvinnslunnar gjöreyðilagðist og frystihús fyrirtækisins stórskemmdist.

Ólafur Gunnarsson var ráðinn framkvæmdastjóri fiskimjölsverksmiðju Síldarvinnslunnar árið 1968 og síðar sama ár tók hann einnig við starfi framkvæmdastjóra frystihúss fyrirtækisins. Þegar Ólafur settist í stól framkvæmdastjóra var hinum svonefndu síldarárum í raun lokið og sífellt meiri áhersla lögð á bolfiskveiðar og vinnslu. Síldarvinnslan festi kaup á fyrsta skuttogara landsmanna árið 1970, árið 1973 var stórt nótaskip keypt til loðnuveiða og sama ár bættist annar skuttogari í flota fyrirtækisins. Síldarbátarnir sem fyrirtækið hafði keypt á síldarárunum voru hins vegar seldir.

Segja má að ágætlega hafi tekist að laga starfsemi Síldarvinnslunnar að nýjum aðstæðum og síðla árs 1974 var staða fyrirtækisins nokkuð góð og var það rekið með hagnaði. En þá dundi ógæfan yfir og snjóflóðin áttu eftir að hafa gífurleg áhrif á allt samfélagið í Neskaupstað. Helstu atvinnufyrirtæki bæjarbúa voru rústir einar eða óstarfhæf eftir flóðin og það sem verra var þá fórust 12 manns í flóðunum, þar á meðal starfsmenn Síldarvinnslunnar. 

Ólafur Gunnarsson fyrrverandi framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar. Myndin er tekin árið 1982. Ljósm. Vilberg Guðnason

Eftir hamfarirnar var oft fundað í stjórn Síldarvinnslunnar og gefa fundargerðir stjórnarinnar góða mynd af því hvernig brugðist var við áfallinu að hálfu fyrirtækisins. Í ritinu birtir Ólafur fundargerðir þeirra funda sem fjölluðu um viðbrögðin auk þess sem hann bætir við ýmsum upplýsingum. Þarna birtist saga baráttunnar fyrir endurreisn atvinnulífsins í bænum eftir flóðin og þau átök sem áttu sér stað um bótagreiðslur vegna skaðans. Mikill ágreiningur um upphæð bótagreiðslanna ríkti á milli Viðlagasjóðs og heimamanna og lauk samskiptunum við sjóðinn ekki fyrr en á árinu 1980 með sáttargerð. Þótti mat sjóðsins á bótagreiðslum og aðrar kröfur sem sjóðurinn setti fram afar ósanngjarnar. Til dæmis kemur fram í riti Ólafs að Viðlagasjóður hafi jafnvel talið eðlilegt að afkastamikil fiskimjölsverksmiðja yrði ekki reist á ný í Neskaupstað heldur einungis lítil beinaverksmiðja í tengslum við starfsemi frystihússins.

Eins og fyrr greinir var Síldarvinnslan tiltölulega öflugt fyrirtæki áður en flóðin féllu en í hönd fóru mikil erfiðleikaár sem reyndu mjög á stjórnendur þess. Uppbyggingin var kostnaðarsöm, bætur Viðlagasjóðs vanreiknaðar og sjávarútvegurinn almennt átti í rekstrarerfiðleikum. Þess skal getið að verðbólgan var mikil á umræddum tíma eða á bilinu 30 til 80% á árunum 1974-1983 og auðveldaði það ekki verkefni stjórnenda Síldarvinnslunnar.

Ólafur Gunnarsson gegndi starfi framkvæmdastjóra Síldarvinnslunnar til ársins 1984 en þá voru liðin 10 ár frá því að snjóflóðin félllu.

Nokkur eintök af riti Ólafs Gunnarssonar fást á skrifstofu Síldarvinnslunnar auk þess sem Bókasafnið í Neskaupstað og Skjala- og myndasafn Norðfjarðar hafa fengið eintök. Hægt er að verða sér úti um eintak með því að hringja á skrifstofu Síldarvinnslunnar og sækja síðan ritið þangað.