-segir Þórhallur Jónasson sem nú lætur af störfum

Þórhallur Jónasson efnaverkfræðingur er um þessar mundir að láta af störfum hjá Síldarvinnslunni að loknum afar farsælum starfsferli. Þórhallur er Reykvíkingur og nam efnaverkfræði í Háskóla Íslands og síðan í Háskólanum í Lundi í Svíþjóð. Hann lauk náminu árið 1977 og fluttist þá til Neskaupstaðar þar sem hann veitti forstöðu nýstofnuðu útibúi Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins. Frá þeim tíma hefur Þórhallur helst fengist við störf sem tengjast fiskimjölsiðnaðinum og eru fáir hér á landi sem hafa jafn mikla reynslu á því sviði og hann.

Í tilefni þess að komið er að starfslokum hjá Þórhalli tók heimasíðan við hann stutt viðtal sem birtist hér á eftir.

-Hvernig kom það til að þú fórst að starfa í Neskaupstað að námi loknu?

Þórhallur að mæla fitumagn í mjöli í útibúi Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins í Neskaupstað haustið 1977. Ljósm. Smári Geirsson

Þegar ég var að ljúka náminu barst mér bréf frá Birni Dagbjartssyni, forstjóra Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins, þar sem hann spurði hvort ég væri reiðubúinn að starfa við útibú stofnunarinnar í Neskaupstað. Mér þótti þetta forvitnilegt verkefni og sló til og ég mun aldrei sjá eftir því. Í sannleika sagt þekkti ég ekkert til út á landi og nánast einu kynnin af landsbyggðinni voru þau að ég hafði keppt í fótbolta í Vestmannaeyjum með Víkingi. Ég var þess vegna að halda út í óvissuna. En staðreyndin er sú að það var einstaklega gaman að koma til Neskaupstaðar. Ég kynntist fljótt frábærlega skemmtilegu fólki og hóf að taka þátt í íþróttalífi og félagslífi á staðnum af miklum krafti. Ég hóf að spila fótbolta með Þrótti og var meira að segja formaður félagsins á árunum 1978 – 1981 og aftur 1982 – 1984. Þá kynntist ég konunni minni, Sigríði Fanný Másdóttur, í Neskaupstað þannig að dvölin þar hafði svo sannarlega mikil og jákvæð áhrif á líf mitt. Störfin á rannsóknastofunni gengu líka vel strax frá upphafi og þar vann ég með hreint frábæru fólki. Þorsteinn Ingvarsson hóf þar störf árið 1978 og það er ekki hægt að hugsa sér betri starfsmann. Þá störfuðu Hjördís Arnfinnsdóttir og Lilja Hulda Auðunsdóttir einnig með okkur ásamt fleira góðu fólki. Rannsóknastofnunin leigði húsnæði af Síldarvinnslunni og var framleiðslueftirliti fiskimjölsverksmiðju fyrirtækisins sinnt í útibúinu. Þannig hófust kynni mín af framleiðslu mjöls og lýsis. Ég kynntist mannskapnum sem starfaði í fiskimjölsverksmiðjunni og lærði mikið af þeim. Þar var fremstur til að fræða mig Kristinn Sigurðsson verksmiðjustjóri en margir aðrir starfsmenn Síldarvinnslunnar eru eftirminnilegir og má þar til dæmis nefna Harald Jörgensen og Freystein Þórarinsson. Útibúið vann með fiskimjölsverksmiðjum á Austfjörðum og var það samstarf afar gott. Á meðal verkefna voru tilraunir með rotvarnareftirlit sem unnið var í samvinnu við Þórð Jónsson verksmiðjustjóra SR á Seyðisfirði. Staðreyndin er sú að drjúgur hluti verkefna útibúsins tengdist vinnslu á uppsjávarfiski og í Neskaupstað féll ég fyrir fiskimjölsiðnaðinum sú nána tenging hefur varað síðan.

-Það kom að því að þú hættir störfum hjá Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins. Hvenær gerðist það?

Einbeitingu þarf við nákvæmnisverk. Þórhallur ákvarðar ammoníak í mjöli haustið 1977. Ljósm. Smári Geirsson

Ég starfaði í Neskaupstað fram að áramótum 1984 – 1985. Þá voru Hornfirðingar að leita að verksmiðjustjóra í fiskimjölsverksmiðjuna þar og Sigurjón Arason spurði mig hvort ég væri tilbúinn að fara þangað. Mér fannst þá spennandi að reyna eitthvað nýtt og ákvað að gefa kost á mér. Við dvöldum ekki mjög lengi á Hornafirði en dvölin þar var lærdómrík og gott að fá að kynnast betur

framleiðsluiðnaðinum. Nú var maður kominn almennilega í atið og ég fékk þarna yfirlit yfir vinnsluna og afgreiðslu afurðanna. Þarna hóf ég að ræða við skipstjóra loðnubátanna og oft var nöldrað smávegis yfir vigtinni en yfirleitt skildu allir sáttir að lokum.

Frá Hornafirði fluttum við til Siglufjarðar. Ég var ráðinn sem rekstrarstjóri verksmiðju SR á Siglufirði og fljótlega tók ég við starfi gæðastjóra allra verksmiðja SR en þær voru á Siglufirði, Seyðisfirði, Raufarhöfn, Reyðarfirði og í Helguvík. Hlutverk mitt sem yfirmaður gæðamála var að hafa eftirlit með framleiðslu allra verksmiðja SR og þurfti ég að heimasækja þær reglubundið. Ein var í mínum verkahring að vera einn af fulltrúum Íslands í alþjóðlegum samtökum fiskmjölsframleiðenda.

Árið 2003 gerist það að SR er sameinað Síldarvinnslunni og fljótlega var ljóst að framleiðsla á fiskimjöli og lýsi heyrði sögunni til á Siglufirði. Ég sinnti starfi gæðastjóra hjá Síldarvinnslunni og árið 2005 flytjum við til Seyðisfjarðar þar sem fiskimjölsverksmiðja var rekin. Við höfum síðan búið á Seyðisfirði og farið vel um okkur þar. Verksmiðjunum sem ég sinnti fækkaði og voru þær lengi vel þrjár talsins; á Seyðisfirði, í Neskaupstað og í Helguvík. Að því kom að hætt var að reka Helguvíkurverksmiðjuna og þá voru einungis verksmiðjan í Neskaupstað og Seyðisfjarðarverksmiðjan eftir.

-Hvað hefur breyst í fiskimjölsiðnaðinum frá því að þú hófst að fylgjast með honum?

Breytingarnar eru gífurlegar bæði hvað varðar veiðar og vinnslu. Hér áður fyrr snerust veiðarnar almennt fyrst og fremst um magn. Uppsjávarflotinn var stór og hver bátur mokaði upp eins miklum fiski og mögulegt var. Staðreyndin er sú að veiðarnar tóku takmarkað tillit til vinnslunnar. Nú er veiðunum hins vegar stjórnað með tilliti til vinnslunnar og fyrst og fremst hugsað um að gera sem mest verðmæti úr aflanum. Lykillinn að þessari þróun er kvótakerfið. Flotinn sem sinnir uppsjávarveiðunum hefur líka breyst mjög mikið. Hér áður voru þetta margir tugir skipa en nú eru skipin fá en afar vel búin til að koma með sem best hráefni að landi. Aflinn er kældur um borð í skipunum og hann er meðhöndlaður með allt öðrum hætti en á fyrri tíð. Gæðahugsunin ræður ríkjum og það skiptir ótrúlega miklu máli.

Hvað vinnsluna varðar hafa líka orðið mjög miklar framfarir. Afurðirnar eru sífellt að verða betri og verðmæti þeirra hefur vaxið gríðarlega. Ástæða verðmætaaukningarinnar er fyrst og fremst tilkoma viðamikils fiskeldis. Eldisfiskurinn þarf ákveðnar fitusýrur í réttu magni og gott prótein og þetta fær hann fyrst og fremst úr fiskimjöli og -lýsi. Allt bendir til að verðmæti afurða frá fiskimjölsiðnaðinum eigi eftir að aukast enn frekar. Eftirspurnin er mikil og allt bendir til að hún eigi eftir að vaxa verulega í framtíðinni. Auðvitað þarf að fara að öllu með gát en útlitið er bjart.

Þórhallur Jónasson er að láta af störfum um þessar mundir. Hann segist eiga eftir að sakna starfs síns en kveður það sæll og glaður. Ljósm. Ómar Bogason

Ekki má gleyma umhverfismálunum í þessu sambandi. Nýting glatvarma, tilkoma rafskautakatla og nú rafvæðing fiskimjölsverksmiðjanna hefur stórminnkað olíunotkunina sem er helsta uppspretta koltvísýrings og brennisteinsdíoxíðs. Þannig hefur kolefnisspor verksmiðjanna hrunið á undanförnum árum. Það þarf að halda áfram á þessari braut og ég hef trú á því að þróunin verði afar jákvæð. Verksmiðja Síldarvinnslunnar í Neskaupstað er hvað lengst komin í þessum efnum en aðrar munu væntanlega fylgja á eftir.

-Hvað á að taka sér fyrir hendur nú þegar störfum lýkur?

Ég hætti störfum glaður og ánægður. Ég hef haft virkilega gaman af vinnunni og sem betur fer mun ég sakna hennar. Nú ætla ég að fara að slappa af og hafa það huggulegt. Eitt er víst að ég mun ganga mikið á næstunni og svo munum við hjónin örugglega ferðast meira en við höfum gert. Nú á bara að njóta lífsins.