Sigurður Karl Jóhannsson hefur verið sjómaður á skipum Síldarvinnslunnar frá 14 ára aldri eða í 45 ár. Hann hefur upplifað gríðarlegar breytingar á sjómannsstarfinu og getur rakið þær með skilmerkilegum hætti. Heimasíða Síldarvinnslunnar ákvað að biðja Sigurð um að segja stuttlega frá reynslu sinni af sjónum og hvernig störfin og skipin hafa breyst. Nú skal Sigurði gefið orðið:
Byrjaði 14 ára hálfdrættingur
 
Ég var 14 ára þegar ég byrjaði á sjónum sumarið 1971. Það var á Barða sem var fyrsti eiginlegi skuttogarinn sem við Íslendingar eignuðumst. Þarna um borð var ég á hálfum hlut á móti Ragnari Sverrissyni en Magni Kristjánsson var skipstjóri. Það var góður skóli að vera á Barðanum og okkur strákunum var ekkert hlíft, stundum var meira að segja pínulítið níðst á okkur. Við vorum til dæmis ávallt látnir vaska upp eftir hverja vakt en það þurftu aðrir hásetar ekki að gera. Svo vorum við píndir reglulega og við tókum alltaf á móti, en þetta var allt í gamni gert. Þarna um borð lærðum við mikið hvað sjómennskuna varðaði og höfðum gott af því að vera þarna. Að loknu fyrsta sumrinu á sjónum var farið í skólann en sumarið eftir kom ekki annað til greina en að halda áfram á Barðanum.
 
Árið 1973 fór ég síðan á Bjart en Magni Kristjánsson var einnig með hann. Bjartur var spánnýr Japanstogari og allt þar um borð þótti óskaplega flott og fínt. Þar um borð var aðbúnaður og vinnuaðstaða miklu betri en á Barðanum og mér fannst ég hafa himin höndum tekið þegar ég kom þar um borð.
 
Fyrstu fjögur árin sem ég var á sjó var ég alltaf sjóveikur – jafnvel í blíðu leið mér illa og ældi oft eins og múkki. Þetta var komið á sálina á mér. En þrátt fyrir bölvaða sjóveikina hélt ég áfram á sjónum og ég er ánægður með þá þrjósku sem ég sýndi þá. Einn góðan veðurdag hvarf sjóveikin og ég hef ekki fundið fyrir henni síðan.
Á fimm skipum í 45 ár
 
Ég hef í reyndinni bara verið á fimm Síldarvinnsluskipum í þau 45 ár sem ég hef starfað hjá fyrirtækinu þó ég hafi farið einn og einn túr á öðrum. Fyrst var ég semsagt á Barða og síðan á Bjarti á árunum 1973-1988. Þá lá leiðin á Börk, sem oft hefur verið nefndur Stóri-Börkur. Á Berki var ég til ársins 2010 en þá var skipt yfir á þáverandi Beiti og af Beiti yfir á núverandi Börk þegar hann var keyptur árið 2014. Skipstjórarnir sem ég hef verið með hafa ekki verið margir, fyrst Magni Kristjánsson eins og fyrr getur, þá Sveinn Benediktsson á Bjarti, síðan Helgi Geir Valdimarsson og Sturla Þórðarson á Stóra-Berki og síðan Sturla, Hálfdan Hálfdanarson og Hjörvar Hjálmarsson. Þá fór ég í afleysingatúra með ýmsum góðum skipstjórum.
Á þessum 45 árum hef ég upplifað stórkostlegar breytingar hvað varðar aðbúnað um borð í skipunum og allt sem lýtur að störfunum við veiðarnar. Á hverjum tíma hef ég þó verið sáttur við aðbúnaðinn og vinnuaðstöðuna. Viðbrigðin voru gífurleg þegar ég fór af Barða yfir á Bjart árið 1973 og síðar hafa viðbrigðin reyndar orðið enn meiri. Staðreyndin er sú að ég hef aldrei notið þess betur að vera á sjó en einmitt núna. Börkur er stórkostlegt skip á allan hátt og það er svo margt sem gerir það að verkum að ég er ánægður í starfinu.
Ótrúlegar breytingar til hins betra
 
Allt varðandi skipin og störfin hefur breyst til hins betra. Þegar ég var á Stóra-Berki, sem síðar fékk nafnið Birtingur, upplifði maður allt aðrar vinnuaðstæður en eru til dæmis á núverandi Berki. Þegar afli var kominn í Stóra- Börk var allt á svarta kafi og menn voru að vinna hundblautir við erfiðar aðstæður. En það gekk vel að fiska á Stóra-Börk og það var stíft sótt. Eitt árið fiskuðum við hátt í 84.000 tonn og þar af var um 60.000 tonn kolmunni. Þetta mun hafa verið árið 2003.
 
Vinnuaðstæður á Beiti sem keyptur var 2010 voru miklu betri en á Stóra-Berki svo ekki sé talað um aðstæðurnar á núverandi Berki. Ef við ræðum aðstæðurnar um borð í núverandi Berki þá er svo margt sem er frábærlega gott. Aðbúnaður skipverja um borð er eins og best verður á kosið, hver og einn hefur sinn klefa og þeir eru snyrtilegir og huggulegir. Setustofur eru bæði þægilegar og rúmgóðar. Þá er líkamsrækt um borð og hún er mikið notuð. Ég hélt ég ætti aldrei eftir að upplifa að vera á svona skipi og að bera þetta saman við aðbúnaðinn á fyrstu skipunum sem ég var á þá er eins og verið sé að bera saman dag og nótt. Þessi glæsilegi aðbúnaður hefur leitt til þess að það er mikil áhersla lögð á að halda öllu um borð hreinu og þrifalegu. Öll áhöfnin sýnir mikinn metnað í þeim efnum og það er ekki einu sinni reykt um borð. Hvað varðar öryggi og vinnuaðstæður þá hefur núverandi Börkur svo margt fram yfir eldri skip. Skipið er stórt og afbragðs sjóskip þannig að það fer vel með áhöfnina. Veltingur í slæmum veðrum er ótrúlega lítill en veltingur og læti þreyta menn mikið og reynir á líkamann. Þá stendur skipið hátt upp úr sjó jafnvel þó að það sé komið með fullfermi (2500 tonn). Sjór gengur ekki yfir dekkið þegar þar er unnið og það þýðir aukið öryggi. Staðreyndin er sú að veður hefur orðið tiltölulega lítil áhrif á störf okkar nema á nótaveiðum en nót er ekki kastað í hvernig veðri sem er. Allur tækjabúnaður um borð í skipinu er af fullkomnustu gerð, sama hvert litið er. Ýmis þessara tækja létta störfin og auka öryggið. Þá hefur verið fækkað í áhöfn og við erum nú 8 á togveiðum og 11 á nót. Menn mega hins vegar ekki gleyma því að einn megintilgangurinn með að fjárfesta í skipum eins og þessum er að færa verðmætari afla að landi. Þessi skip koma með úrvalshráefni til vinnslu, aflinn er kældur um borð og þá gerir stærð skipanna það að verkum að þau fara miklu betur með aflann en eldri skipin gerðu. Þessi nýju skip bjóða semsagt upp á betri og öruggari vinnuaðstæður, þægindi og verðmætari afla. Það getur enginn sem til þekkir haldið því fram að það sé óskynsamlegt að fjárfesta í þessum glæsilegu atvinnutækjum. Ofan á þetta bætist síðan að á uppsjávarskipum Síldarvinnslunnar hafa árum saman verið tvöfaldar áhafnir þannig að sjómennirnir á þeim fá tækifæri til að njóta fjölskyldulífs í miklu meira mæli en áður þekktist.
 
Þegar allt þetta er skoðað hljóta menn að skilja vel að maður eins og ég, sem hefur verið í 45 ár á sjó, sé sáttur við hlutskipti sitt nú á tímum. Ef til vill eru menn ekki nægilega duglegir að segja frá því hvað einkenndi skipin og sjómannsstarfið á fyrri tíð og gera grein fyrir því hve framfarirnar eru í reynd miklar.