Frá undirritun samnings um söluna á Hafnarbraut 2 ehf. Talið frá vinstri: Guðmundur R. Gíslason framkvæmdastjóri SÚN, Axel Ísaksson fjármálastjóri Síldarvinnslunnar, Gunnþór B. Ingvason forstjóri Síldarvinnslunnar, Guðröður Hákonarson og Þóra Lind Bjarkadóttir

Hjónin Guðröður Hákonarson og Þóra Lind Bjarkadóttir hafa fest kaup á Hafnarbraut 2 ehf. og þar með húseigninni að Hafnarbraut 2 í Neskaupstað. Hótel Hildibrand hefur haft húsið á leigu undanfarin ár fyrir starfsemi sína. Hafnarbraut 2 ehf. var í eigu Samvinnufélags útgerðarmanna í Neskaupstað, Síldarvinnslunnar hf. og Fjárfestingafélagsins Varar.

Húsið á Hafnarbraut 2 á sér merka sögu en það var Kaupfélagið Fram sem reisti það og hóf þar verslunarstarfsemi árið 1951. Eftir að Kaupfélagið Fram hætti starfsemi var húsinu breytt þannig að á efri hæðum voru gerðar leiguíbúðir en á neðstu hæð þess voru bæjarskrifstofur um skeið. Hafnarbraut 2 ehf. festi kaup á húsinu árið 2013 og hefur það síðan verið leigt Hótel Hildibrand.

Þau hjón, Guðröður og Þóra Lind, eiga 50% hlut í Hótel Hildibrand og er gert ráð fyrir að það haldi áfram starfsemi sinni í húsinu með líkum hætti og verið hefur.

Hafnarbraut 2 í Neskaupstað. Ljósm. Hákon Ernuson