Frystitogarinn Blængur NK kom til Neskaupstaðar í gærkvöldi að lokinni mánaðarlangri veiðiferð. Afli skipsins er tæplega 700 tonn að verðmæti 215 milljónir króna. Uppistaða aflans er ufsi og karfi. Theodór Haraldsson skipstjóri segir að túrinn hafi fyrst og fremst einkennst af eilífum flótta undan veðri. „Við byrjuðum túrinn fyrir austan land vegna slæms veðurs fyrir vestan. Reynt var að finna ufsa en það gekk ekki alltof vel. Þegar veður lægði vestra héldum við þangað og þar var reynt við ufsa, karfa og ýsu. Tíðin var í reyndinni djöfullleg stóran hluta veiðiferðarinnar. Einu sinni var farið undir Grænuhlíð og legið í vari og einu sinni hröktumst við úr Reykjafjarðarálnum vegna veðurs, en við vorum alltaf að færa okkur til út af veðri. Túrnum lukum við síðan út af Norðurlandi í ufsaleit. Hvað afla varðar voru tvær fyrstu vikurnar í túrnum heldur lélegar, en seinni tvær voru bara góðar,“ segir Theodór.