Green Guatemala að lesta frysta loðnu í Neskaupstað í dag.  Ljósm. Þórhildur Eir Sigurgeirsdóttir Nú liggur skipið Green Guatemala í höfninni í Neskaupstað og lestar frysta loðnu sem fer til Svartahafsins.  Um er að ræða eina stærstu útskipun ársins en skipið mun taka 5.000 tonn. Að sögn Heimis Ásgeirssonar yfirverkstjóra gengur lestun vel og fara um 1.000 tonn um borð í skipið á dag.

Í stað loðnunnar sem fer úr frystigeymslum Síldarvinnslunnar kemur frystur kolmunni. Vilhelm Þorsteinsson EA er væntanlegur seinni partinn á morgun með tæplega 600 tonn af frystum kolmunna og á fimmtudag er Hákon EA væntanlegur með um 750 tonn.

Heimir segir að miklar annir séu hjá starfsmönnum frystigeymslanna um þessar mundir og það sé svo sannarlega nóg að gera framundan.