Síldarvinnslan hf. var skráð í Kauphöll Íslands á síðasta ári og er eina skráða félagið með höfuðstöðvar utan höfuðborgarsvæðisins. Það verður því vart annað sagt en fyrirtækið hafi sérstöðu í íslensku atvinnulífi. Síldarvinnslan hefur ávallt lagt áherslu á að vera virkur þátttakandi í þeim samfélögum sem hún hefur starfsemi í og taka þátt í uppbyggingu þeirra. Fyrirtækið styrkir stofnanir og félagasamtök í samfélögunum með ýmsum hætti, en það er helst gert með beinum styrkjum, gjöfum eða kaupum á auglýsingum. Æskulýðs- og íþróttafélög eru styrkt myndarlega og einnig björgunarsveitir og félög sem sinna menningarstarfi. Þá hafa heilbrigðisstofnanir og skólar einnig notið styrkja. Áhersla hefur verið lögð á að styrkja Fjórðungssjúkrahúsið í Neskaupstað til tækjakaupa og eins hefur Verkmenntaskóli Austurlands fengið að njóta framlaga til kaupa á ýmsum kennslubúnaði. Síldarvinnslan vill leggja áherslu á að efla nærumhverfið með fjölbreyttum hætti og fyrir liggur að efling þess kemur fyrirtækinu og starfsfólki þess ávallt til góða. Veittir styrkir Síldarvinnslunnar á árinu 2021 námu 48,4 milljónum króna og er sú skoðun ríkjandi innan fyrirtækisins að þeim fjármunum hafi verið vel varið.
Nánar má fræðast um ýmis samfélags- og sjálfbærnimál í nýútkominni samfélagsskýrslu Síldarvinnslunnar fyrir árið 2021 sem finna má á heimasíðu fyrirtækisins (svn.is).
Hér verður birt tafla sem veitir upplýsingar um styrki og framlög Síldarvinnslunnar til ýmiss konar starfsemi félagasamtaka og stofnana á árinu 2021:
Starfsemi | Styrkir og framlög í milljónum kr. |
Íþróttir og æskulýðsstarf | 23,4 |
Menning | 7,1 |
Heilbrigðismál | 6,6 |
Björgunarsveitir | 4,0 |
Menntun | 3,8 |
Félagasamtök | 2,1 |
Stjórnmálaflokkar | 1,5 |