Sl. fimmtudag og föstudag hélt Kristján Már Magnússon sálfræðingur fyrirlestra um einelti fyrir starfsfólk Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði og í Neskaupstað. Á fimmtudaginn var fyrirlesturinn haldinn tvisvar á Seyðisfirði og einu sinni í Neskaupstað og á föstudag var hann haldinn fjórum sinnum í Neskaupstað.
Í fyrirlestrinum var fjallað um skilgreiningu á eineltishugtakinu og ákvæði laga og reglna um einelti. Rætt var um þolendur og gerendur í eineltismálum og mikilvægi þess að stemma stigu við einelti á frumstigi. Í fyrirlestrinum var einnig rætt um þá sem verða vitni að einelti og hve brýnt sé að þeir geri yfirmanni á vinnustað eða starfsmannastjóra grein fyrir því. Starfsmenn þurfa að vera meðvitaðir um eineltisvandann og taka virkan þátt í að kæfa hann í fæðingu ef vart verður við hann.
Að sögn Hákonar Ernusonar starfsmannastjóra Síldarvinnslunnar er mikilvægt að starfsfólk sé upplýst um einelti og hafi fyrirlesturinn verið liður í því. Að hans sögn þurfa menn ávallt að vera vakandi í þessum efnum og þurfa allir að gera sér grein fyrir því til hvers alvarlegt einelti getur leitt. Það er ekki síst mikilvægt að þeir sem upplifi einelti á vinnustað en eru hvorki í hlutverki geranda né þolanda bregðist við og upplýsi hlutaðeigandi yfirmann um ástandið. Sá sem upplýsir um eineltisvanda á vinnustað nýtur nafnleyndar og ætti enginn að hika við að segja frá og láta taka á málinu.