Öryggistöflur hafa verið settar upp í fiskiðjuveri og fiskimjölsverksmiðjunni í Neskaupstað. Slíkum töflum verður einnig komið upp á öðrum starfsstöðvum og í skipum Síldarvinnslunnar. Ljósm. Hákon Ernuson  Öryggistöflur hafa verið settar upp í fiskiðjuveri og fiskimjölsverksmiðjunni í Neskaupstað. Slíkum töflum verður einnig komið upp á öðrum starfsstöðvum og í skipum Síldarvinnslunnar. Ljósm. Hákon Ernuson
Síðustu vikuna hefur verið mikið fjallað um einelti og áreitni um borð í fiskiskipum  og í fiskvinnslufyrirtækjum. Sú umræða er þörf, enda er einelti og áreitni á vinnustað ólíðandi, auk þess að vera brot á vinnuverndarlöggjöf. Nýleg rannsókn Salóme Rutar Harðardóttur á lífsánægju og starfsumhverfi  íslenskra sjómanna bendir til þess að allt of margir sjómenn hafi orðið fyrir einelti eða orðið vitni að því síðustu sex mánuði, eða 39%. Nýleg starfsánægjukönnun sem Austurbrú framkvæmdi fyrir Síldarvinnsluna bendir til þess að um 5% sjómanna Síldarvinnslunnar hafi einhvern tímann upplifað einelti og að 25% þeirra hafi einhvern tímann orðið vitni að slíku. Það er lægra hlutfall en í könnun Salóme, en undirstrikar samt þörfina fyrir það að vinna markvisst að því að uppræta einelti. 
 
Síldarvinnslan hefur síðustu misseri lagt aukna áherslu á að einelti verði ekki liðið og að tilkynningar eða grunur um slíkt verði tekinn alvarlega og var til að mynda nýlega haldið vandað námskeið fyrir starfsmenn um einelti og viðbrögð við því. Jafnframt er skýrt tekið fram í starfsmannastefnu fyrirtækisins að einelti og áreitni af öllu tagi sé algerlega óheimil. Að auki verður gripið til eftirfarandi aðgerða:
 
  • Starfsmenn eru hvattir til að láta vita af því ef þeir hafa orðið fyrir einelti eða áreitni, eða orðið vitni að slíku. Tilkynna má slíkt með eftirfarandi hætti:
    • Fylla má út ábendingarform og skila í lokaðan póstkassa við öryggistöflu. Slíkar töflur eru komnar upp í fiskiðjuveri og í fiskimjölsverksmiðjunni í Neskaupstað og verða í kjölfarið settar upp á öðrum starfsstöðvum og í skipum fyrirtækisins. Ábendingin má vera nafnlaus
    • Tilkynna má einelti eða áreitni til viðkomandi skipstjóra, stýrimanns, verksmiðjustjóra eða verkstjóra. Þeim ber skylda til að tryggja að málið fái faglega meðferð 
    • Tilkynna má einelti eða áreitni beint til Hákonar Ernusonar starfsmannastjóra
  • •Starfsmenn munu fá frekari fræðslu og upplýsingar um einelti og áreitni
  • •Stjórnendur munu fá sérstaka þjálfun í meðhöndlun eineltis og áreitni
  • •Ásakanir um einelti og áreitni verða rannsakaðar með markvissari hætti og tekið verður fast á brotum
 
Einelti og áreitni geta haft alvarleg áhrif á líðan fólks og heilsu og er algerlega óboðlegt að fólk verði fyrir slíku í vinnunni. Það er algerlega skýrt af hálfu fyrirtækisins að samskipti starfsmanna skuli einkennast af kurteisi og virðingu og að einelti og áreitni séu ólíðandi.