Í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar er unnið á þrískiptum vöktum.
Ljósm. Smári Geirsson

Tíðindamaður heimasíðunnar lagði leið sína í fiskiðjuver Síldarvinnslunnar í gær og hitti þar að máli Odd Einarsson yfirverkstjóra. Oddur tók við starfi yfirverkstjóra um síðustu áramót, en hann er sjávarútvegsfræðingur að mennt. Oddur var fyrst spurður hvernig hráefnið væri sem nú væri verið að vinna. “Síldin sem nú er verið að vinna er sannkallað úrvalshráefni enda er örstutt á miðin og góð veiði. Nú er verið að vinna úr Beiti NK en hann kom í morgun með 900 tonn eftir örstutta veiðiferð. Miðin eru um 50 mílur hér út frá Norðfirði og skipin stoppa stutt á miðunum. Þau eru síðan 4 – 5 klukkutíma að færa okkur hráefnið í land. Staðreyndin er sú að hráefnið er eins ferskt og hægt er að hugsa sér. Síldin sem veiðist er stór og átulítil. Nú heilfrystum við stærstu síldina en síðan eru einnig framleidd samflök Það sem flokkast frá í manneldisvinnslunni fer ásamt afskurði til mjöl- og lýsisframleiðslu. Unnið er á þrískiptum vöktum í fiskiðjuverinu og þannig hefur það verið frá því að makrílvertíðin hófst í byrjun júlí. Síldarvertíðin hófst 21. ágúst þegar Barði NK fór prufutúr, en síðasti makrílfarmurinn barst til okkar 31. ágúst. Hér í fiskiðjuverinu er unnið á þrískiptum vöktum og um þessar mundir á síldin hug okkar allan. Síðustu ár hefur síld borist til okkar fram í nóvember en nú hefur miklu verið bætt við kvótann í íslenskri sumargotssíld þannig að við vitum ekki hve vinnsla síldar mun vara lengi hér í fiskiðjuverinu. Það á eftir að koma í ljós,” segir Oddur.

Nú er stærsta síldin heilfryst en síðan eru framleidd samflök. Ljósm. Smári Geirsson
Síldin fryst og komin í kassa og á leiðinni í frystigeymslu. Ljósm. Smári Geirsson
Samflök á leið í pökkun. Ljósm. Smári Geirsson