Gullver NS í brælu. Ljósm. Þorgeir Baldursson

Ísfisktogarinn Gullver NS landaði í heimahöfn á Seyðisfirði í gærmorgun. Aflinn var 96 tonn, mest þorskur og ýsa. Heimasíðan ræddi við Steinþór Hálfdanarson skipstjóra og spurði hann hvar hefði verið veitt. „Við byrjuðum á Tangaflakinu, síðan var farið í Reyðarfjarðardýpið og á Gerpisflakið og eftir það veitt Utanfótar. Tveir dagar fóru síðan í að leita að ufsa og karfa og þá var haldið í Berufjarðarál, Lónsdýpið og á Papagrunn. Ufsa- og karfaleitin bar harla lítinn árangur. Að þessari leit lokinni var tekið eitt hol á Breiðdalsgrunni og síðan endað á Tangaflakinu. Það var semsagt víða farið. Allan túrinn var sjólagið hreint út sagt skelfilegt. Það var alltaf sama áttin, helvítis lægðabuna. Þetta var eins og að vera í grautarpotti. Það er gott að koma í land eftir að hafa upplifað svona sjólag dögum saman,“ segir Steinþór.