Páll Freysteinsson. Ljósm. Smári Geirsson

Páll Freysteinsson er nýr öryggisstjóri Síldarvinnslunnar og hefur störf í dag. Páll er Norðfirðingur, fæddur árið 1960. Hann er kvæntur Jóhönnu Bryndísi Jónsdóttur sem starfar á skrifstofu Síldarvinnslunnar. Þau eiga þrjár uppkomnar dætur og fimm barnabörn.

Páll er tölvuverkfræðingur að mennt og lauk hann námi sínu í háskólanum í Álaborg í Danmörku. Að námi loknu starfaði hann fyrst við hugbúnaðargerð hjá fyrirtækinu EJS og varð síðar framkvæmdastjóri hjá því fyrirtæki. Síðar starfaði hann hjá hugbúnaðarfyrirtækinu Hugur/Ax. Árið 2007 flutti fjölskyldan austur til Neskaupstaðar og hóf Páll þá störf hjá ALCOA – Fjarðaáli. Í upphafi var hann framkvæmdastjóri upplýsingatækni hjá Fjarðaáli og síðan var hann framkvæmdastjóri viðhaldsmála um tíma. Loks hóf hann að gegna starfi framkvæmdastjóra öryggis- og heilsumála hjá Fjarðaáli. Páll segist vera afar ánægður með starfstíma sinn hjá ALCOA – Fjarðaáli. Hann hafi unnið með afar góðu fólki og öðlast dýrmæta reynslu í störfunum þar. Þá reynslu geti hann svo sannarlega hagnýtt sér.

Páll lauk störfum hjá ALCOA – Fjarðaáli í mars á síðasta ári og frá þeim tíma hefur hann sinnt ýmsum áhugamálum þar til nú þegar nýtt starf á hug hans allan. Áhugamálin eru fjölþætt og má þar nefna íþróttir, útivist og uppgerð gamalla húsa. Viðfjörður á sérstakan sess í huga Páls, en hann á ættir að rekja þangað. „Í Viðfirði eru ávallt næg verkefni og þar er gott að vera,“ segir Páll.

Eins og að vera kominn heim

Páll segir að sér finnist afar ánægjulegt að ljúka starfsferli sínum hjá Síldarvinnslunni. „Ég var virkilega ánægður þegar mér bauðst að hefja störf sem öryggisstjóri hjá Síldarvinnslunni. Ég hef fylgst með Síldarvinnslunni og þar er um að ræða gott og framsækið fyrirtæki. Ég hef líka sterk tengsl við fyrirtækið frá fyrri tíð. Ég hef líklega verið tólf ára þegar ég byrjaði að vinna hjá Síldarvinnslunni. Þá starfaði ég við að þvo fiskikassa. Síðan vann ég til dæmis í fiskmóttökunni í frystihúsinu og þar vann ég einnig í tækjaklefanum. Eins starfaði ég í frystigeymslunni inn á höfn þegar hún var nýrisin og við hreinsunar- og uppbyggingarstörf eftir snjóflóðin 1974. Síðast starfaði ég hjá Síldarvinnslunni á loðnuvertíð 1980 – 1981. Nú þegar ég hef störf hjá Síldarvinnslunni á ný finnst mér eins og ég sé kominn heim. Það er tilhlökkunarefni að fá tækifæri til að koma að öryggismálunum hjá Síldarvinnslunni. Ég mun starfa að þeim með sérstakri öryggisnefnd og síðan yfirmönnum á hinum fjölmörgu vinnustöðum fyrirtækisns. Vinnustaðirnir eru bæði vinnslustöðvar í landi og síðan öll skipin. Það hefur verið unnið skipulega að öryggismálum hjá fyrirtækinu á undanförnum árum, en Guðjón B. Magnússon er fyrirrennari minn í þessu starfi,“ segir Páll.

Reynslan frá ALCOA – Fjarðaáli mun nýtast vel

Þegar Páll er spurður að því hvort reynsla hans af störfum fyrir ALCOA – Fjarðaál muni nýtast honum í nýju starfi segir hann að svo sé. „Já, hún mun koma að miklum notum. Sannleikurinn er sá að koma Bechtel og ALCOA til Austurlands gjörbreytti allri hugsun hvað öryggismál varðar. Bechtel annaðist byggingu álversins og tóku menn strax eftir því hvernig öryggismál voru í öndvegi hjá því fyrirtæki. Síðan hafa menn kynnst öryggismenningunni innan álversins. Reynsla mín af því hvernig

tekið er á öryggismálum í álverinu er dýrmæt og á eftir að nýtast afar vel. Öryggishugsunin byggir fyrst og fremst á því að koma í veg fyrir slys og óhöpp af öllu tagi. Þess vegna þurfa öll eftirlitskerfi að vera virk. Þegar slys henda þarf að rannsaka þau til hins ítrasta og tryggja að þau endurtaki sig ekki. Mottóið á að vera að menn komi ávallt jafnheilir heim úr vinnunni og þegar menn héldu til hennar. Í öryggismálunum eru það vönduð vinnubrögð og agi sem skipta öllu máli. Allir þurfa að finna til öryggisábyrgðar. Ég mun kappkosta í þessu starfi að vinna náið með starfsfólkinu, það þarf að sýna öllum virðingu og tillitssemi og það þarf að hlusta á allar ábendingar frá þeim sem þekkja best til á hverjum vinnustað. Ég lít á öryggisstjórastarfið sem krefjandi og gefandi starf og ég hlakka til að hefja samskipti við starfsfólk Síldarvinnslunnar,“ segir Páll Freysteinsson.