Erlendur Bogason kafari í Eyjafirði hefur í nærri þrjá áratugi myndað og rannsakað lífverur neðansjávar við strendur Íslands og víðar. Myndatökurnar hafa aukist ár frá ári, viðskiptavinir hans eru meðal annars stórar efnisveitur, svo sem Netflix. Sunnudaginn 1. apríl datt Erlendur heldur betur í lukkupottinn en þá náði hann að mynda mjög svo þétta loðnutorfu rétt við Hjalteyri.
Hægt er að skoða myndband af loðnutorfunni með því að smella á hnapp neðst í fréttinni.
Myndaði í eina og hálfa klukkustund
„Ég var þarna í mesta sakleysi að týna skeljar handa steinbítunum mínum, þegar ég skyndilega var kominn inn í mjög svo þétta loðnutorfu. Ég flýtti mér í land, sótti myndavélarnar og náði að vera með torfunni í eina og hálfa klukkustund og taka upp í góðum gæðum, 6K,“ segir Erlendur Bogason.
Einstakt á heimsvísu
„Fljótlega eftir að ég byrjaði að mynda neðansjávar var stefnan sett á að ná myndum af loðnutorfu, en það hafði ekki tekist fram að þessu. Þrátt fyrir að hafa farið nokkrum sinnum með loðnuskipum á miðin í gegnum tíðina, hafði mér ekki tekist að komast í aðstæður eins og þessar við Hjalteyri. Mér er ekki kunnugt um að áður hafi tekist að ná jafn góðum myndskeiðum og þessi eru, þrátt fyrir töluverða leit. Ég hef séð myndir sem teknar voru á hrygningaslóð við Kanada og sjálfur hef ég náð stuttum myndskeiðum, en einn og hálfur tími af myndefni er örugglega alveg einstakt á heimsvísu.“
Líklega að leita að stað til að hrygna
„Það sem einkennir þessar myndir er þéttleiki torfunnar. Þarna sést til dæmis glögglega hvernig torfan skiptir sér upp í karl- og kvenhópa. Kvenloðnan átti eftir að hrygna og var líklega að leita sér að hentugum stað til þess. Þetta eru sem sagt torfur sem koma upp að landinu á eftir göngum sem loðnuflotinn gerir út á. Annars á ég alveg eftir að rýna betur í allt efnið, atferli fiskanna og svo framvegis. Draumurinn er að finna stað þar sem loðnan hrygnir, mynda hrygningu og svo hvernig hrognunum reiðir af.“
Hápunkturinn á ferlinum
„Þetta var klárlega einn af hápunktum ferilsins neðansjávar og líklega þess virði að bíða í öll þessi ár. Þarna er komið efni sem hægt verður að nota ansi víða, enda myndirnar teknar upp í hárri upplausn. Ég hélt að loðnuvertíðin hjá mér væri liðin, en 1. apríl var svo sannarlega happadagur. Góðu heilli eru góðir bakhjarlar sem styðja þetta verkefni, Samherji, Síldarvinnslan og Vinnslustöðin. Ég er þessum félögum þakklátur fyrir stuðninginn og skilning á þrjósku minni. Þessi dagur var klárlega hápunkturinn á ferlinum og í mínum huga var vel þess virði að bíða í öll þessi ár eftir rétta augnablikinu.“
Sjavarlif.is
Erlendur Bogason heldur úti vefnum sjavarlif.is , þar sem hægt er að skoða neðansjávarmyndir og myndbönd.
Öllum er heimil notkun á myndunum og efninu á vefnum til að forvitnast og fræðast en opinber birting án leyfis er óheimil.
Síldarvinnslan fékk góðfúslegt leyfi til að birta myndskeið af loðnutorfunni við Hjalteyri og má nálgast það HÉR