Beitir NK kastaði á síldarmiðunum austur af landinu um hádegi í gær. Dregið var í um 40 mínútur og reyndist aflinn vera 1.320 tonn. Sturla Þórðarson skipstjóri segir að þarna hafi verið mikla síld að sjá. „Þetta var einum of mikið af því góða hjá okkur. Við viljum helst ekki fá svona mikinn afla í holi. Við viljum frekar smærri skammta. Þetta fékkst á Héraðsflóanum um 16 mílur út af Glettingi. Það voru 32 mílur frá veiðistaðnum í Norðfjarðarhöfn. Þetta er fínasta síld og meðalþyngdin er 385 grömm. Síldin fer auðvitað öll til manneldisvinnslu. Það var bara eitt skip að veiðum þarna auk okkar; Aðalsteinn Jónsson SU. Nú eru hins vegar fjórir bátar á leiðinni af makrílmiðunum í Síldarsmugunni á síldarmiðin. Það eru einungis fáir bátar eftir í Smugunni og enn er leitað að makríl en árangurinn hefur verið lítill upp á síðkastið,“ segir Sturla.