Eiríkur Þór Magnússon, yfirrafvirki hjá Síldarvinnslunni, lét af störfum 1. desember sl. eftir að hafa starfað sem rafvirki hjá fyrirtækinu í 32 ár. Í tilefni af þessum tímamótum ræddi heimasíðan stuttlega við hann.
-Hvenær hófst þú að sinna rafvirkjastörfum sem tengdust sjávarútvegi?
Ég hóf að læra rafvirkjun árið 1972 og meistari minn var Jón Lundberg. Hjá Jóni var fjölþættum verkefnum sinnt og meðal annars unnið í fiskvinnslufyrirtækjum og skipum. Þannig að kynnin af störfum sem tengdust sjávarútvegi hófust snemma. Ég lauk náminu árið 1976 og starfaði eingöngu við rafvirkjun fram á árið 1981.
-Hvenær réðst þú þig til starfa hjá Síldarvinnslunni?
Ég hóf að starfa hjá Síldarvinnslunni árið 1981. Þá var ég ráðinn á Börk NK á loðnuvertíð sem háseti. Mér líkaði vel á sjónum og var á Berki á loðnu alveg fram til 1989 og undir lok þess tíma reyndar einnig utan loðnuvertíða. Þegar ég var ekki á sjónum starfaði ég við rafvirkjun, fyrst hjá Jóni Lundberg og síðan hjá Sveini Elíassyni.
-En síðan kom að því að þú hófst störf sem rafvirki hjá Síldarvinnslunni?
Já, ég hafði verið á Berki í ein tvö ár samfellt þegar Karl Jóhann Birgisson hafði samband við mig og bauð mér starf rafvirkja hjá fyrirtækinu. Þetta var árið 1989. Ég var efins um hvort ég ætti að þiggja starfið en gekkst inn á það að ráða mig til eins árs í tilraunaskyni. Starfssvæði mitt í upphafi var gamla frystihúsið. Tveimur dögum eftir að ég hóf störf átti sér stað atburður sem leiddi næstum til þess að ég hætti. Við vorum þrír að vinna við ketil í frystihúsinu sem var bilaður. Ég hafði farið upp á ketilinn en framan við hann stóðu félagar mínir. Þá allt í einu springur ketillinn og mennirnir sem stóðu framan við hann stórslösuðust báðir. Þetta voru þeir Matthías Sveinsson og Jón B. Magnússon. Eðlilega hafði þetta slys slæm áhrif á mann en ég ákvað að þrauka í starfinu eitthvað lengur. Ég starfaði í gamla frystihúsinu og reyndar einnig í saltfiskverkun fyrirtækisins fram til ársins 1996 en þá tók allt að breytast; hafist var handa við að stækka fiskimjölsverksmiðjuna og um líkt leyti hófst bygging fiskiðjuversins. Við þessar framkvæmdir komu til ný tæki og búnaður þannig að verkefni rafvirkja jukust gríðarlega. Á þessum tíma var Skúli Hjaltason rafvirki ráðinn til starfa en í fiskimjölsverksmiðjunni hafði Magni Sveinsson rafvirki starfað frá því áður en ég hóf störf hjá fyrirtækinu. Þá ber að nefna að Björn Brynjarsson rafvirki hjá Rafgeisla og síðar Launafli hefur starfað hjá Síldarvinnslunni afar lengi. Þegar starfsemin í gamla frystihúsinu var færð inn í nýja fiskiðjuverið kom Þórarinn Ómarsson til liðs við okkur sem sinntum rafmagninu og um tíma var Jón Björn Bragason, rafvirki og tæknifræðingur, einnig með okkur. Magni og Þórarinn eru því menn sem eru hoknir af reynslu og starfa enn af fullum krafti. Undanfarið hafa svo nýir menn bæst í hópinn en það eru þeir Þorlákur Sigurðsson og Sigurpáll Sindrasaon. Þegar mest hefur verið um að vera og uppbygging átti sér stað voru fyrirtæki fengin til að sinna ákveðnum verkefnum og samstarfið við þau og einnig verkfræðistofur, sem hafa komið að málum, hefur verið einkar ánægjulegt. Ég hef kynnst mörgu frábæru fólki í gegnum starfið.
–Hvað hefur helst breyst á þessum 32 árum?
Það sem hefur helst breyst er tæknin. Það hefur sífellt verið unnið að umbótum á tækjum og búnaði og verkefnin á rafmagnssviðinu hafa aukist og aukist. Það hafa mörg framfaraspor verið stigin og það er til dæmis nánast ekkert eftir af upphaflegum búnaði í fiskiðjuverinu. Það hefur verið afar spennandi að fá tækifæri til að taka þátt í þeirri þróun sem átt hefur sér stað. Þá hefur mér einnig fundist ánægjulegt að taka nema í rafvirkjun í starfsnám en við höfum tekið fimm nema. Það eru Ingvar Stefán Árnason, Sigurður Ásgeirsson, Hafrún Eiríksdóttir, Manuel Garcia Roman og síðan Ívar Dan Arnarsson sem nú er tæknistjóri fiskiðjuversins. Annað sem hefur breyst er álagstími starfseminnar. Þegar ég var að hefja störf hjá Síldarvinnslunni sem rafvirki og verið var að semja um laun var rætt um tvö álagstímabil á árinu; loðnuvertíðina annars vegar og hins vegar veiðar og vinnslu á íslenskri sumargotssíld á haustin. Þetta átti aldeilis eftir að breytast. Nú er nánast allt árið álagstími – það er loðnan, norsk-íslenska síldin, makríllinn, kolmunninn og íslenska sumargotssíldin. Umsvifin hafa aukist mikið stig af stigi og um leið hefur verkefnum starfsmanna fyrirtækisins fjölgað.
-Heldurðu að þú sjáir ekki eftir því að hætta störfum núna?
Nei, nei. Það er langt síðan ég ákvað að hætta störfum þegar ég yrði 67 ára og ég varð 67 ára 29. nóvember sl. Konan mín, Auður Hauksdóttir, starfaði lengi á skrifstofu Síldarvinnslunnar og hún hætti störfum fyrr á árinu. Nú ætlum við að fara að hafa það huggulegt; spila golf, fara á skíði og dúlla okkur með barnabörnunum. Við munum hafa nóg fyrir stafni og okkur mun örugglega ekki leiðast. Nú bíð ég bara eftir að unnt verði að fara á skíði í Oddsskarðinu. Á þessum tímaótum er manni þakklæti efst í huga og ég vil bara þakka samstarfsmönnum mínum og Síldarvinnslunni fyrir öll þau góðu ár sem ég hef átt hjá fyrirtækinu.