Smíði á botneiningu í nýjan Börk NK. Ljósm. Hörður ErlendssonSmíði á botneiningu í nýjan Börk NK.
Ljósm. Hörður Erlendsson
Gert er ráð fyrir að nýr Börkur verði afhentur Síldarvinnslunni í janúarmánuði 2021 þannig að eitt ár mun líða þar til nýju skipi verður fagnað. Það eru ávallt tímamót þegar nýtt skip kemur í fyrsta sinn til heimahafnar og með hverju nýju skipi sem bætist í flota landsmanna eru stigin einhver framfaraskref.
 
Það er Skipasmíðastöðin Karstensens í Skagen í Danmörku sem annast smíði hins nýja Barkar en Börkur verður systurskip Vilhelms Þorsteinssonar sem einnig er í smíðum hjá stöðinni og mun væntanlega verða afhentur eiganda sínum í ágústmánuði nk. 
 
Miðskipseining, lestareining, í smíðum. Ljósm. Hörður ErlendssonMiðskipseining, lestareining, í smíðum.
Ljósm. Hörður Erlendsson
Skipasmíðastöð Karstensens hefur starfsstöðvar í Póllandi og þar er efnað niður í skipin og skrokkar þeirra smíðaðir. Síðan eru skrokkarnir dregnir til Skagen og þar er smíði skipanna lokið. Fyrir nokkru hófst smíði hins nýja Barkar í Gdynia og hafa fulltrúar Síldarvinnslunnar heimsótt stöðina þar og fræðst um hvernig að smíðinni er staðið. Í stöðinni er allt efni í skipið sniðið niður með hjálp tölvutækni og síðan vinnur mikill fjöldi manna við að setja einingarnar saman. 
 
Nýr Börkur er smíðaður með flotvörpu- og hringnótaveiðar í huga þannig að hann verður dæmigert uppsjávarveiðiskip. Mun hann leysa af hólmi núverandi Börk sem smíðaður var í Tyrklandi árið 2012. Nýi Börkur verður 88 m að lengd, 16,6 m að breidd og 9,6 m að dýpt. Stærð skipsins verður 4.100 brúttótonn. Aðalvélar í skipinu verða tvær, 3.200 ha hvor, en einnig verður í því 820 kw ásrafall. Rafall skipsins verður 3.500 kw og í því verða tvö kælikerfi, 1.500 kw hvort, til að kæla aflann. Kælitankar verða 13 talsins, alls 3.420 rúmmetrar. Í skipinu verða vistarverur fyrir 16 manns.
 
Þilfarseining í smíðum. Ljósm. Hörður ErlendssonÞilfarseining í smíðum. Ljósm. Hörður ErlendssonKnud Degn Karstensen framkvæmdastjóri skipasmíðastöðvarinnar segir að lengi hafi verið áhugi fyrir því hjá forsvarsmönnum hennar að smíða fiskiskip fyrir Íslendinga. Einungis eitt skip hafi verið smíðað hjá stöðinni fyrir íslenskt fyrirtæki áður en smíði Vilhelms Þorsteinssonar og Barkar hófst en það var Þórunn Sveinsdóttir VE. Annars hafa umsvif Skipasmíðastöðvar Karstensens verið mikil á síðustu árum og frá árinu 2007 hefur stöðin lokið smíði á milli 40 og 50 skipa af ýmsum gerðum. Er þar um að ræða fiskiskip, herskip og rannsóknaskip. Síðustu árin hefur stöðin afhent 5-6 nýsmíðuð skip árlega ásamt því að sinna viðhaldi og breytingum á fjölmörgum skipum. Það má því segja að umsvifin hjá Skipasmíðastöð Karstensens séu mikil. 
 
Þannig mun nýr Börkur NK líta út.Þannig mun nýr Börkur NK líta út.