
Ljósm. Hörður ErlendssonGert er ráð fyrir að nýr Börkur verði afhentur Síldarvinnslunni í janúarmánuði 2021 þannig að eitt ár mun líða þar til nýju skipi verður fagnað. Það eru ávallt tímamót þegar nýtt skip kemur í fyrsta sinn til heimahafnar og með hverju nýju skipi sem bætist í flota landsmanna eru stigin einhver framfaraskref.
Það er Skipasmíðastöðin Karstensens í Skagen í Danmörku sem annast smíði hins nýja Barkar en Börkur verður systurskip Vilhelms Þorsteinssonar sem einnig er í smíðum hjá stöðinni og mun væntanlega verða afhentur eiganda sínum í ágústmánuði nk.

Ljósm. Hörður ErlendssonSkipasmíðastöð Karstensens hefur starfsstöðvar í Póllandi og þar er efnað niður í skipin og skrokkar þeirra smíðaðir. Síðan eru skrokkarnir dregnir til Skagen og þar er smíði skipanna lokið. Fyrir nokkru hófst smíði hins nýja Barkar í Gdynia og hafa fulltrúar Síldarvinnslunnar heimsótt stöðina þar og fræðst um hvernig að smíðinni er staðið. Í stöðinni er allt efni í skipið sniðið niður með hjálp tölvutækni og síðan vinnur mikill fjöldi manna við að setja einingarnar saman.
Nýr Börkur er smíðaður með flotvörpu- og hringnótaveiðar í huga þannig að hann verður dæmigert uppsjávarveiðiskip. Mun hann leysa af hólmi núverandi Börk sem smíðaður var í Tyrklandi árið 2012. Nýi Börkur verður 88 m að lengd, 16,6 m að breidd og 9,6 m að dýpt. Stærð skipsins verður 4.100 brúttótonn. Aðalvélar í skipinu verða tvær, 3.200 ha hvor, en einnig verður í því 820 kw ásrafall. Rafall skipsins verður 3.500 kw og í því verða tvö kælikerfi, 1.500 kw hvort, til að kæla aflann. Kælitankar verða 13 talsins, alls 3.420 rúmmetrar. Í skipinu verða vistarverur fyrir 16 manns.

