Fyrsta loðnufarminum landað í hina nýju verksmiðju Síldarvinnslunnar þann 12. febrúar 1976. Þá kom Magnús NK með 260 tonn. Vélar verksmiðjunnar fóru síðan að snúast þann 19. febrúar. Ljósm. Guðmundur Sveinsson

Mesti áfalladagurinn í sögu Neskaupstaðar og Síldarvinnslunnar var 20. desember árið 1974. Á þeim degi féllu tvö stór snjóflóð sem lögðu helstu framleiðslufyrirtæki bæjarins í rúst og kostuðu tólf mannslíf. Efnahagslegt áfall var gífurlegt og sorgin réði ríkjum.

Á meðal þeirra framleiðslufyrirtækja sem voru í rúst var fiskimjölsverksmiðja Síldarvinnslunnar og ljóst var að hún yrði ekki reist á ný á sama stað. Ákveðið var að reisa nýja verksmiðju við nýju höfnina sem var verið að gera fyrir botni Norðfjarðar. Fyrir lá að mikið verk þyrfti að inna af hendi áður en byggingaframkvæmdir gætu hafist því eftir var að skipuleggja hafnarsvæðið, hanna nýja verksmiðju og gera uppfyllingu sem verksmiðjan yrði reist á.

Strax og uppfylling hafði verið gerð í júlímánuði 1975 hófust framkvæmdir við byggingu verksmiðjunnar. Mikil áhersla var lögð á að flýta verkinu eins og frekast var kostur. Auk verksmiðjuhússins skyldi reisa áfast mjölgeymsluhús og einnig tvo lýsisgeyma og svartolíugeymi. Þá þurfti að gera undirstöður fyrir hráefnisgeyma en hráefnisgeymar gömlu verksmiðjunnar voru nýttir áfram.

Markmiðið var að ný verksmiðja gæti hafið vinnslu á loðnuvertíðinni 1976 og það markmið náðist. Þann 12. febrúar 1976 landaði Magnús NK fyrsta loðnufarminum í nýju verksmiðjuna, en hann var 260 tonn. Vinnsla hófst í verksmiðjunni þann 19. febrúar en samt fór því fjarri að öllum framkvæmdum vegna byggingar hennar væri lokið.

Það þótti ótrúlegt og þykir enn að einungis einu ári og átta vikum eftir að snjóflóðin féllu skuli vinnsla hafa hafist í nýrri fiskimjölsverksmiðju og það sem gerir þetta enn ótrúlegra er að fyrst þurfti að gera landfyllingu sem verksmiðjan var síðan reist á. Vegna gerðar landfyllingarinnar gátu eiginlegar byggingaframkvæmdir ekki hafist fyrr en í júlímánuði 1975 en þær gengu afar hratt og örugglega fyrir sig.