Um þessar mundir er mikið skipað út af frystum makríl og síld úr frystigeymslum Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Koma flutningaskipin hvert á fætur öðru og lesta stóra farma. Í gær var lokið við að lesta skip og þegar það hélt úr höfn sigldi næsta skip inn Norðfjarðarflóann til lestunar og mættust skipin á miðjum flóanum. Alls taka þessi tvö skip rúmlega 7000 tonn af frystum afurðum og um þessar mundir er skipað út allan sólarhringinn. Skipin tvö sem hér um ræðir eru engin smásmíði, annað er 137 metrar á lengd og hitt 134. Mun farmur beggja skipanna fara til hafna við Svartahaf.