Bjarni Ólafsson að landa í NeskaupstaðÞað skipast fljótt veður í lofti. Afar lítið var að sjá af síld á Breiðafjarðarmiðum í gær en í dag er þar mokveiði og allir bátar að fá í sig. Bjarni Ólafsson AK lagði af stað til Neskaupstaðar í hádeginu í dag með 700 tonna afla. Hann mun koma þangað aðra nótt. Beitir NK er á miðunum og var slegið á þráðinn til Hjörvars Hjálmarssonar skipstjóra. „Við erum komnir með 800-900 tonn og erum að fá um 300 tonn frá Hákoni. Það var nánast ekkert að sjá af síld í gær en nú er hún komin svo um munar. Og hún er á hinum hefðbundnu slóðum á Grundarfirði þannig að það er tiltölulega auðvelt að eiga við hana. Það má segja að mokveiði hafi verið í dag, hér á Grundarfirðinum eru 6 bátar og þeir eru allir að fá í sig. Það er svona sem við viljum hafa það“, sagði Hjörvar að lokum.