Makríllinn hefur verið erfiður viðureignar að undanförnu og hefur íslenski makrílflotinn verið að veiðum í Smugunni. Lítið hefur veiðst og hafa skipin sem landa hjá Síldarvinnslunni haft samvinnu um veiðarnar – hverju sinni er afla þeirra dælt um borð í eitt skip sem flytur hann að landi. Börkur NK kom síðast til löndunar í Neskaupstað með rúm 1100 tonn og lauk vinnslu úr honum í gær. Jón Gunnar Sigurjónsson yfirverkstjóri í fiskiðjuverinu segir að makríllinn sé stór og í honum töluverð áta en vinnslan gangi vel.
Í gær glæddist veiðin í Smugunni og voru skipin að fá 150-250 tonna hol. Aflinn var settur í Bjarna Ólafsson AK og er hann á landleið með um 960 tonn. Skipið mun koma að landi um hádegisbil á morgun, en 310 mílur eru frá veiðisvæðinu til Neskaupstaðar. Heimasíðan ræddi við Þorkel Pétursson stýrimann og spurði hvort ekki hefði hýrnað yfir mönnum þegar veiðin batnaði. „Jú, vissulega eru menn hressari. Menn voru búnir að leita töluvert og loksins fannst blettur sem gaf dálítið og fengum við 240 tonna hol í gær. Það er að koma þarna makríll, en þetta er ekkert mok en nuddast ágætlega. Makríllinn sem við höfum verið að fá núna er heldur minni en sá sem áður fékkst. Hann er að meðaltali í kringum 450 grömm, en áður fékkst makríll vel yfir 500 grömmum. Þegar byrjað var að trolla á þessum bletti þyrptust skipin að og brátt var kominn mikill fjöldi skipa. Þarna eru mest Rússar en einnig grænlensk skip,“ segir Þorkell.
Heimasíðan heyrði einnig í Sigurði Valgeir Jóhannessyni, skipstjóra á Beiti NK og sagði hann að veiði hefði hafist í gær eftir að skipin hefðu leitað að mestu í eina tvo sólarhringa. „Við settum afla um borð í Bjarna Ólafsson í gær en dældum síðan 150 tonnum um borð í morgun. Við erum næsta skip sem tekur á móti afla skipa sem landa hjá Síldarvinnslunni. Það fundust blettir í gærmorgun og veiðin hófst þá. Makríllinn er oft erfiður viðureignar, hann birtist og hverfur og það getur verið pirrandi að eiga við hann. Þetta virðist vera eina svæðið í Smugunni sem er að gefa einhvern afla því skipin hafa flykkst hér að og það er orðin bullandi traffík hérna,“ segir Sigurður.