Benedikt Þór Guðnason. Ljósm. Rúnar Þór Birgisson

Eins og greint hefur verið frá hér á heimasíðunni hefur Guðmundur Arnar Alfreðsson, útgerðarstjóri Bergs – Hugins í Vestmannaeyjum, látið af störfum vegna aldurs eftir langan og farsælan strafsferil. Nú hefur arftaki Guðmundar verið ráðinn til starfa og er það Benedikt Þór Guðnason vélfræðingur. Starfsheiti Benedikts verður viðhaldsstjóri en í reynd mun hann gegna sama starfi og Guðmundur sinnti frá árinu 1986.

Heimasíðan ræddi við Benedikt og spurði hann fyrst út í starfsferilinn. „Ég útskrifaðist sem vélfræðingur í lok ársins 1986 og hef síðan að mestu starfað við vélstjórn. Fyrst eftir útskriftina var ég á Suðurey VE sem var í eigu Hraðfrystistöðvar Vestmannaeyja. Síðan sameinaðist Hraðfrystistöðin Ísfélaginu og eftir það var ég lengi á Ísfélagsskipum. Fyrst á Heimaey til ársins 1999 og eftir það starfaði ég um tíma í smiðju hjá Ísfélaginu. Ég fór aftur á sjóinn og var á Sigurði á árunum 2000 – 2004 og síðan á Guðmundi á árunum 2004 – 2014. Þá fór ég á lóðsinn hér í Eyjum og var á honum í eitt og hálft ár. Árið 2015 réðst ég á togarann Breka sem þá var verið að smíða í Kína. Á Breka var ég fram í október á síðasta ári en hóf þá að starfa með Guðmundi hjá Bergi – Hugin,“ segir Benedikt.

Aðspurður segir Benedikt að sér lítist vel á nýja starfið. „Þetta verður bara spennandi. Ég ætti að vera vel undirbúinn til að gegna því en það verður ekki auðvelt að fara í skóna hans Gumma. Ég mun hins vegar gera mitt allra besta,“ segir Benedikt að lokum.