Eldri borgarar frá Héraði í heimsókn í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar.  Ljósm. Þráinn SkarphéðinssonSíðastliðinn sunnudag komu eldri borgarar frá Héraði í heimsókn í fiskiðjuver Síldarvinnslunnar. Það var Félag eldri borgara á Héraði sem skipulagði ferðina og taldi hópurinn 25 manns. Hópurinn fór einnig í heimsókn í Safnahúsið í Neskaupstað auk þess að skoða bæinn undir leiðsögn Ínu Gísladóttur.

Að sögn Þráins Skarphéðinssonar formanns ferðanefndar félagsins var heimsóknin til Neskaupstaðar einstaklega vel heppnuð og fyrir marga var heimsóknin í fiskiðjuverið einn af hápunktunum. Þeir sem treystu sér til fóru í skoðunarferð um fiskiðjuverið en aðrir létu sér nægja að horfa yfir helsta verksmiðjusalinn. Þá var hópnum boðið upp á glæsilegt „fermingarveisluhlaðborð“ í verinu þannig að allir fóru þaðan mettir og glaðir. Þráinn lýsir heimsókninni með svofelldum orðum: „Í fiskiðjuverinu ræður tæknin ríkjum og það er stórkostlegt að sjá hvernig fiskiðnaðurinn hefur breyst og þá um leið störfin sem honum tengjast. Enginn í hópi okkar Héraðsmanna hafði komið í fiskiðjuver af þessu tagi áður og í sannleika sagt voru allir gapandi af undrun um leið og menn voru alsælir með móttökurnar. Vélbúnaðurinn er ótrúlega fullkominn og það er ævintýri að fá að sjá og skynja allan framleiðsluferilinn, allt frá því að fiskurinn er flokkaður þegar hann kemur inn í húsið og þangað til honum er pakkað sem endanlegri frosinni afurð. Þá kom líka á óvart að sjá hve öll aðstaða fyrir starfsfólkið er glæsileg. Öllum sem tóku þátt í ferðinni er efst í huga þakklæti til þeirra sem tóku á móti hópnum og það er ljóst að ferðin spyrst vel út því ég hef hitt fólk sem hefur fengið fréttir af  þessari Norðfjarðarferð og dauðsér eftir að hafa ekki komið með“.