Vestmannaey VE. Ljósm. Smári Geirsson

Rétt fyrir klukkan 16:00 í dag kom upp eldur í vélarými ísfisktogarans Vestmannaeyjar VE en skipið var á leið til löndunar í Neskaupstað með fullfermi. Systurskipið Bergey VE kom til aðstoðar og dregur nú Vestmannaey til hafnar Neskaupstað. Engin slys á mönnum hafa orðið um borð í Vestmannaey og er ástandið talið stöðugt.

 Þegar skipsverjar urðu varir við eldinn var strax gerð tilraun til að slökkva hann en þegar það tókst ekki var öllum rýmum lokað og drepið á vél skipsins. Í kjölfarið var óskað eftir aðstoð frá næsta skipi sem var Bergey VE.

Unnið er með viðbragðsaðilum í Fjarðabyggð og mun dráttarbáturinn Vöttur aðstoða ef á þarf að halda. Bergey mun koma til hafnar með Vestmannaey í togi upp úr klukkan 2:00 í nótt og mun slökkvilið Fjarðabyggðar fara strax um borð í skipið og gera viðeigandi ráðstafanir.