Að undanförnu hefur norski brunnbáturinn Sørdyrøy verið að flytja sláturlax til Djúpavogs fyrir fiskeldisfyrirtækin Fiskeldi Austfjarða hf. og Laxa hf. en laxinum er slátrað hjá Búlandstindi. Báturinn er í eigu norsks fyrirtækis og er leigður til að sinna flutningunum. Hófust þeir í byrjun janúar og munu standa til febrúarloka en þá mun hann hverfa til annarra verkefna.
Þessi bátur var smíðaður í Florø í Noregi árið 1966 og hét upphaflega Börkur. Hann var fyrsti báturinn í eigu Síldarvinnslunnar sem bar það nafn. Báturinn hefur breyst mikið frá fyrstu útgáfu: Hann var lengdur 1975 og jafnframt byggt yfir dekk hans. Árið 1989 var sett á hann ný brú og bakki ásamt fleiri endurbótum. Árið 1996 var hann lengdur á ný og gerður nýr skutur og loks árið 2003 var honum breytt í brunnbát.
Hér verður saga bátsins rakin í afar stuttu máli:
- Börkur kom nýr til Neskaupstaðar 7. nóvember 1966.
- Hinn 12. september 1972 fær hann nafnið Börkur II enda Síldarvinnslan búin að festa kaup á stærra skipi sem fékk nafnið Börkur.
- Hinn 21. desember 1972 er báturinn seldur til Akraness og fær þá nafnið Bjarni Ólafsson. Hinn 30. desember 1977 tekur sænskt skipasmíðafyrirtæki bátinn upp í nýjan bát sem það er að smíða fyrir útgerðarfélagið á Akranesi.
- Hinn 11. janúar 1978 er báturinn seldur til Hafnarfjarðar og fær þá nafnið Arnarnes.
- Hinn 16. janúar 1981 er báturinn seldur til Djúpavogs og fær þá nafnið Krossanes.
- Síðar sama ár er báturinn seldur til Ólafsfjarðar og fær þá nafnið Guðmundur Ólafur. Síðar er hann nefndur Guðmundur Ólafur II.
- Árið 2003 er bátnum breytt í brunnbát og er þá í eigu hlutafélagsins Seley ehf. Þá er báturinn nefndur Snæfugl og er með heimahöfn í Neskaupstað. Mun Snæfugl hafa verið fyrsti sérhæfði brunnbáturinn í eigu Íslendinga.
- Árið 2008 er Snæfugl seldur til Noregs og ber nú nafnið Sørdyrøy.