Börkur NK kom nýr til Neskaupstaðar 7. nóvember 1966. Ljósm. Guðmundur SveinssonBörkur NK kom nýr til Neskaupstaðar 7. nóvember 1966.
Ljósm. Guðmundur Sveinsson
Að undanförnu hefur norski brunnbáturinn Sørdyrøy verið að flytja sláturlax til Djúpavogs fyrir fiskeldisfyrirtækin Fiskeldi Austfjarða hf. og Laxa hf. en laxinum er slátrað hjá Búlandstindi. Báturinn er í eigu norsks fyrirtækis og er leigður til að sinna flutningunum. Hófust þeir í byrjun janúar og munu standa til febrúarloka en þá mun hann hverfa til annarra verkefna.
 
Þessi bátur var smíðaður í Florø í Noregi árið 1966 og hét upphaflega Börkur. Hann var fyrsti báturinn í eigu Síldarvinnslunnar sem bar það nafn. Báturinn hefur breyst mikið frá fyrstu útgáfu: Hann var lengdur 1975 og jafnframt byggt yfir dekk hans. Árið 1989 var sett á hann ný brú og bakki ásamt fleiri endurbótum. Árið 1996 var hann lengdur á ný og gerður nýr skutur og loks árið 2003 var honum breytt í brunnbát.
 
Hér verður saga bátsins rakin í afar stuttu máli:
 
  • Börkur kom nýr til Neskaupstaðar 7. nóvember 1966. 
  • Hinn 12. september 1972 fær hann nafnið Börkur II enda Síldarvinnslan búin að festa kaup á stærra skipi sem fékk nafnið Börkur.
  • Hinn 21. desember 1972 er báturinn seldur til Akraness og fær þá nafnið Bjarni Ólafsson. Hinn 30. desember 1977 tekur sænskt skipasmíðafyrirtæki bátinn upp í nýjan bát sem það er að smíða fyrir útgerðarfélagið á Akranesi.
  • Hinn 11. janúar 1978 er báturinn seldur til Hafnarfjarðar og fær þá nafnið Arnarnes.
  • Hinn 16. janúar 1981 er báturinn seldur til Djúpavogs og fær þá nafnið Krossanes.
  • Síðar sama ár er báturinn seldur til Ólafsfjarðar og fær þá nafnið Guðmundur Ólafur. Síðar er hann nefndur Guðmundur Ólafur II.
  • Árið 2003 er bátnum breytt í brunnbát og er þá í eigu hlutafélagsins Seley ehf. Þá er báturinn nefndur Snæfugl og er með heimahöfn í Neskaupstað. Mun Snæfugl hafa verið fyrsti sérhæfði brunnbáturinn í eigu Íslendinga.
  • Árið 2008 er Snæfugl seldur til Noregs og ber nú nafnið Sørdyrøy.

 

Norski brunnbáturinn Sørdyrøy að landa laxi á Djúpavogi fyrr í mánuðinum. Ljósm. Andrés SkúlasonNorski brunnbáturinn Sørdyrøy að landa laxi á Djúpavogi
fyrr í mánuðinum. Ljósm. Andrés Skúlason