Elsti Börkur og sá næstelsti saman við bryggju á Reyðarfirði sl. sunnudag. Sørdyrøy er rauðmálaður en Janus er blár. 
Ljósm. Guðmundur Sveinsson

Sl. sunnudag lágu elsti og næstelsti Börkur saman við bryggju á Reyðarfirði. Elsti Börkur er nú brunnbátur sem notaður er til að flytja lifandi lax og ber hann nafnið Sørdyrøy. Sørdyrøy á heimahöfn í Kristansund í Noregi. Næstelsti Börkur ber nú nafnið Janus og á heimahöfn í Gdynia í Póllandi.
 
Elsti Börkur var smíðaður fyrir Síldarvinnsluna í Noregi  og kom nýr til Neskaupstaðar 7. nóvember árið 1966. Skipið var í eigu Síldarvinnslunnar til ársins 1972 en var þá seldur til Akraness og fékk nafnið Bjarni Ólafsson. Síðar fékk skipið ýmis nöfn eins og til dæmis Arnarnes, Krossanes og Guðmundur Ólafur. Árið 2003 var því breytt í brunnbát og fékk þá nafnið Snæfugl. Snæfugl var síðan seldur til Noregs árið 2008.
 
Síldarvinnslan festi kaup á næstelsta Berki árið 1973. Skipið var í eigu Síldarvinnslunnar til ársins 2016 en bar reyndar nafnið Birtingur á árunum 2012-2016. Árið 2016 var skipið selt pólsku útgerðarfyrirtæki og fékk það þá nafnið Janus.