Nýtt björgunarskip, Hafbjörg, kom í fyrsta sinn til heimahafnar í Neskaupstað  skömmu fyrir hádegi í dag.

Björgunarbátasjóður Austurlands hefur frá árinu 1996 rekið björgunarskip með staðsetningu í Norðfjarðarhöfn. Fyrsta skipið var hollenskt björgunarskip sem keypt var notað frá Hollandi árið 1996 og síðar var því skipi skipt út fyrir núverandi Hafbjörgu sem er smíðuð 1985 og var keypt frá bresku sjóbjörgunarsamtökunum árið 2004.

Eins og komið hefur fram í fréttum stendur til að endurnýja flota björgunarskipa í kringum landið með nýsmíði, en ljóst þykir að það ferli muni taka nokkur ár. Hefur Björgunarbátasjóður Austurlands því ákveðið að leita leiða til að endurnýja núverandi björgunarskip á meðan unnið er að nýsmíðamálum

Nú hefur verið unnið að því um nokkurt skeið að kaupa notað björgunarskip sem bar nafnið Elsa Johansson frá sænsku sjóbjörgunarsamtökunum SSRS og þykir henta vel fyrir þær aðstæður og verkefni sem skip og áhöfn eru að sinna. Umrætt skip er smíðað árið 1997og er sambærilegt núverandi björgunarskipi að stærð með mestu lengd 16.14 metra og 5.14 metra breidd.

Það helsta sem nýja skipið hefur fram yfir núverandi Hafbjörgu er:

  • Aukið farsvið
  • Aukinn ganghraði
  • Hentar betur til dráttar, vel útbúið
  • 7 tonna togkraftur með sleppikrók
  • Skiptiskrúfur á móti föstum skrúfum
  • Verulega aukin stjórnhæfni
  • Vel útbúið til slökkvistarfa m.a. með varnarvatnsúðakerfi
  • Öflugar lausar dælur
  • Mikil sjóhæfni
  • Allur aðbúnaður áhafnar er mun betri og uppfyllir nútíma kröfur

Áætlað er að heildarkostnaður við verkefnið verði um milli 50 og 60 milljónir króna og leggur Björgunarbátasjóður Austurlands ásamt Slysavarnafélaginu Landsbjörgu fram bróðurpartinn af þeirri upphæð, en leitað hefu verið  til styrktaraðila með það sem uppá vantar. Þegar hafa eftirtaldir aðilar styrkt skipakaupin með myndarlegum hætti: Síldarvinnslan, Samvinnufélag útgerðarmanna í Neskaupstað, Eskja, Loðnuvinnslan, Fjarðabyggðarhafnir, Einhamar og Hampiðjan.

Björgunarskipið Hafbjörg ásamt áhöfn sinnir útköllum á hafsvæðinu úti fyrir Austfjörðum, auk annara verkefna  og hafa útköllin verið af ýmsum toga.  Sem dæmi má nefna aðstoð við vélarvana báta og skip, leit að týndum einstaklingum í hafi, leit að bátum, aðstoð við leit í landi, dælingu úr sökkvandi bátum, slökkviverkefni, dæluverkefni, sjúkraflutningar og svo mætti lengi telja.  Meðal síðustu verkefna Hafbjargar eru til dæmis þátttaka í björgunarstarfi eftir skriðuföllin á Seyðisfirði,en þar var Hafbjörg mikilvægur hlekkur í ferjun á mannskap og búnaði ásamt björgun á verðmætum frá því svæði sem aðeins var fært til sjóleiðina.

Skipið fór í nauðsynlegar lagfæringar og endurbætur í skipasmíðastöð framleiðandans í Svíþjóð og við heimkomu er ætlunin að bæta við tækjum og búnaði til þess að skipið verði sem best búið til leitar- og björgunarstarfa við Íslandsstrendur.

Það verður bylting að fá öflugt björgunarskip til Austfjarða og ljóst er að þetta er stórt öryggisskref fyrir sjófarendur.

Formleg móttaka nýs björgunarskips verður á Þjóðhátíðardaginn 17.júní í Neskaupstað á milli kl. 16 og 18 og verður skipið til sýnis.

Hafi einhverjir áhuga á að styrkja verkefnið geta þeir sett sig í samband við stjórn Björgunarbátasjóðs Austurlands með netfanginu .

Nýja Hafbjörg siglir á fullri ferð inn Norðfjörð í dag