Fiskimjöls- og lýsisframleiðsla er mjög fjárfrekur iðnaður og hérlendis hefur verið fjárfest meira í þessari grein en nokkurri annarri í íslenskum sjávarútvegi síðasta áratuginn eða svo. Nú eru starfandi á Íslandi 21 fiskimjölsverksmiðja, flestar nýjar eða endurbættar og með afkastagetu upp á 1000 tonn eða meira á sólarhring.
Það þýðir að ársafkastageta þeirra er milli 6 og 7 milljón tonn á ári , en þær eru að vinna úr um það bil einni og hálfri milljón tonna, sem þýðir að meðalnýtingin er innan við 25 prósent. Það er að sjálfsögðu óásættanlegt til lengdar.
Til samanburðar má nefna, að í Noregi eru nú 11 verksmiðjur, sem tóku á móti svipuðu magni og í Danmörku 4 verksmiðjur sem einnig tóku á móti um 1.5 milljónum tonna.
Í báðum þessum löndum hefur farið fram gagnger endurskipulagning í þessari grein og verksmiðjum fækkað um meira en helming á nokkrum undanförnum árum.
Í Færeyjum er aðeins ein verksmiðja og tók hún á móti ríflega 200 þúsund tonnum og var nýting hennar um 43% af hámarksafköstum. Það sem er sérstakt við þá verksmiðju er að fiskimjölið og lýsið sem hún framleiðir fer að langstærstum hluta í fóður fyrir eldislax í Færeyjum.
Það er að mínu mati ekki vafi á, að samskonar þróun og endurskipulagning muni eiga sér stað hér á landi. Síauknar kröfur í umhverfismálum, gæðakröfur af hálfu kaupenda og mikill kostnaður við endurnýjun tækjabúnaðar kalla á það. Síldarvinnslan er eitt af stærstu fyrirtækjum landsins í veiðum og vinnslu á uppsjávarfiski og við viljum vera leiðandi í þeirri þróun, sem óhjákvæmilega mun verða á allra næstu árum. Einhverjar verksmiðjur verða lagðar niður eða leggjast niður af sjálfu sér þar sem þær geta ekki staðið undir þessum auknu kröfum, en aðrar munu stækka og verða enn fullkomnari.
Það er þessi framtíðarsýn, sem réði því að Síldarvinnslan keypti fyrr í sumar 29.5% hlutafjár í SR-mjöli fyrir um 1800 milljónir króna. Samherji, sem er stærsti einstaki eigandinn í Síldarvinnslunni, hefur svo eignast 14% í SR-mjöli, en samtals eiga þessi þrjú fyrirtæki 10 verksmiðjur á svæðinu frá Siglufirði austur og suðurum til Helguvíkur. Framundan er því tími endurskipulagningar og hagræðingar í fiskimjölsiðnaðinum og þegar upp er staðið verður það tvímælalaust til hagsbóta fyrir alla aðila.
Kristinn V. Jóhannsson,
stjórnarformaður SVN