Síðustu mánuði hefur staðið yfir vinna við endurskoðun á starfsmannastefnu Síldarvinnslunnar. Nokkuð langt er um liðið frá því stefnan var endurskoðuð síðast og því orðið tímabært að dusta af henni rykið. „Markmiðið með endurskoðun starfsmannastefnunnar er að tryggja að við séum í takt við tímann“, segir Hákon Ernuson starfsmannastjóri. „Það skiptir fyrirtækið miklu máli að hafa á að skipa góðu fólki sem líður sem best í starfi og er hvatt til að gera sitt besta. Nýja stefnan á að skerpa fókusinn hvað það varðar,“ segir Hákon. Sigurður Ólafsson, ráðgjafi hjá Gagnráðum ehf, hefur unnið að endurskoðun stefnunnar í samstarfi við Hákon og hefur hann meðal annars tekið viðtöl við tugi starfsmanna víðsvegar um fyrirtækið. Nú stendur einnig yfir skoðanakönnun sem á að veita frekari upplýsingar um starfsánægju og álit starfsmanna á starfi sínu og munu þau gögn einnig nýtast við endurskoðunina. Mikilvægt er að sem flestir starfsmenn taki þátt í könnuninni, en allir starfsmenn hafa fengið sendan hlekk á könnunina í tölvupósti. Þátttakendur njóta nafnleyndar þegar þeir svara könnuninni og eru starfsmenn hvattir til að vera hreinskilnir í svörum sínum.