Beitir NK.  Ljósm. Þorgeir BaldurssonBeitir NK kom til löndunar í Neskaupstað í morgun með 480 tonn af makríl og síld en verið er að ljúka við að landa úr Berki NK sem kom til hafnar aðfaranótt þriðjudags með 550 tonn. Í viðtali við heimasíðuna sagði Hálfdan Hálfdanarson skipstjóri á Beiti að í túrnum hefði ekki verið nein kraftveiði, þetta hefði verið þokkalegt nudd. „Við vorum að veiðum í Hvalbakshalli, á Þórsbanka og í Rósagarðinum eins og við höfum verið alla vertíðina“, sagði Hálfdan. „Aflinn er býsna misjafn, stundum lítið að hafa en inn á milli koma ágæt hol. Þetta er svo sem svipað og oft áður en makríllinn er blandaðri en síðustu ár hvað stærð varðar. Líklega á það eftir að breytast þegar líður á vertíðina en reynslan sýnir að þá aukast líkur á stærri og betri fiski. Síld er um það bil þriðjungur af aflanum í þessum túr og þannig hefur það verið að undanförnu. Norsk-íslensku síldarinnar verður víða vart í köntunum hérna fyrir austan og má segja að hún sé komin á sínar hefðbundnu sumarslóðir“.