Eins og komið hefur fram í fréttum kom togarinn Gullver NS til heimahafnar á Seyðisfirði í gærkvöldi vegna þess að fimm úr áhöfninni fundu fyrir slappleika og í öryggisskyni þótti nauðsynlegt að taka sýni og kanna hvort þeir væru smitaðir af kórónuveirunni.
Snemma í morgun voru tekin sýni úr fimmmenningunum og héldu þeir síðan í einangrun á hóteli í bænum. Aðrir í áhöfninni fóru í sóttkví.
Nú er niðurstaða fengin og kom í ljós að enginn fimmmenninganna er smitaður af COVID og mun Gullver halda á ný til veiða í kvöld.