Börkur NK heldur til kolmunnaveiða.  Ljósm. Þórhildur Eir Sigurgeirsdóttir

Sigurbergur Hauksson skipstjóri á Berki NK segir að enginn kraftur sé enn kominn í kolmunnaveiðarnar.  „Það var mun betri veiði á sama tíma í fyrra“, segir Sigurbergur „og það er engu líkara en kolmunninn sé seinna á ferðinni nú.  Í gær kom smá neisti í þetta en fljótlega datt veiðin niður á ný.“

Sigurbergur upplýsir að skipin séu að toga 12-14 tíma og aflinn í hverju holi sé gjarnan á bilinu 200-400 tonn.  Börkur hélt til veiða s.l. föstudag og var aflinn orðinn 1.100 tonn þegar rætt var við skipstjórann.  Skipið hefur ekki getað verið samfellt að veiðum eftir að það kom á miðin vegna brælu sem skall á aðfaranótt mánudags.

„Við erum að toga núna“, segir Sigurbergur, „en árangurinn mætti vera betri.  Þetta hlýtur að fara að batna bráðlega og við erum bjartsýnir eins og alltaf.“