Íslensk skip hafa hafið kolmunnaveiðar í færeysku lögsögunni en heldur rólegt er yfir veiðunum ennþá. Heimasíðan ræddi við Sigurð Grétar Guðmundsson skipstjóra á Polar Amaroq og spurði hvernig gengi. „Þetta fer hægt af stað. Við erum búnir að taka tvö hol. Í því fyrra fengust 340 tonn eftir að hafa togað í 17 tíma og í því síðara fengust 320 tonn eftir 22 tíma. Við erum á línunni um 120 mílur suðvestur af Suðurey. Hérna er mikill fjöldi skipa og þau eru færeysk, rússnesk og íslensk auk okkar. Núna eru 20 skip að toga hér í næsta nágrenni við okkur. Færeyingarnir segja að enn séu nokkrir dagar í að kolmunninn gangi fyrir alvöru inn í lögsöguna, en hann hefur gengið hægt norður eftir nú síðustu dagana. Vissulega gæti hann þó tekið strauið með fallinu og þá er þetta fljótt að gerast,“ segir Sigurður Grétar.