Í síðustu viku fór fram úttekt á jafnlaunakerfi Síldarvinnslunnar. Fyrirtækið BSÍ á Íslandi framkvæmdi úttektina. Í slíkri úttekt er skoðað mjög ítarlega hvort fyrirtækið hagi launamálum í samræmi við jafnlaunastaðalinn ÍST 85:2012. Áður en til úttektar kom hafði farið fram greining á launagögnum þar sem skoðað var með svonefndri aðhvarfsgreiningu hvort einhvern óútskýrðan launamun væri að finna hjá fyrirtækinu. Svo reyndist ekki vera. Launagreiningin var framkvæmd af fyrirtækinu Intenta ehf. Úttekt BSÍ og launagreiningin staðfesta að Síldarvinnslan hagar launamálum sínum í samræmi við jafnlaunastaðalinn og að engan óútskýrðan launamun sé að finna hjá fyrirtækinu. Hákon Ernuson starfsmannastjóri Síldarvinnslunnar sagðist vera mjög ánægður með niðurstöðuna. “Við vitum alveg að launamálin hjá okkur eru faglega unnin, en það er alltaf gott að fá slíkt staðfest af óháðum aðilum. Það er skýrt í starfsmannastefnunni okkar, jafnréttis- og jafnlaunastefnunni, að þættir eins og kyn, kynhneigð og uppruni fólks eiga ekki að hafa nein áhrif á launasetningu. Slíkar úttektir staðfesta að svo er ekki, sem kemur okkur svo sem ekkert á óvart, enda er þetta þriðja úttektin af þessu tagi sem við förum í gegnum. Við stefnum nú sem endranær að því að borga laun samkvæmt samningum og lögum og að vera samkeppnishæf um góða starfsmenn af öllum kynjum,” segir Hákon.